Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 17:31:44 (518)

2000-10-12 17:31:44# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þessi málflutningur talsmanns Sjálfstfl. í þessu máli harla undarlegur. Hann er að réttlæta það að barnabætur skuli hafa verið rýrðar sem nemur 2 milljörðum kr. á einum áratug vegna þess að viðmiðunarreglurnar eru ekki látnar fylgja, ekki bara launaþróun, ekki verðlagsþróun og hafa rýrnað af þeim sökum. Þær eru 1 milljarði lægri en þær voru í upphafi tíunda áratugarins í krónum talið og 2 milljörðum lægri þegar þær eru reiknaðar að raungildi.

Ég vék að lyfjakostnaðinum. Frá því um áramót hafa hámarksgreiðslur á hverja lyfjaávísun fyrir elli- og örorkuþega hækkað um 58,33%, hjá öðrum um 72%. Hér er um að ræða hjartalyf, geðlyf og annað af því tagi.

Síðan getum við haldið áfram að telja upp tilkostnað sem fallið hefur á lífeyrisþega og öryrkja. Símkostnaðinn t.d. sem núna er kominn, útvarp og sjónvarp. Eignarskattar hafa hækkað og þannig mætti áfram telja. Og að þurfa síðan að hlusta á þetta. Ég velti því fyrir mér hvernig fólki líður sem fylgist með þessari umræðu, því að það eru margir sem fylgjast með umræðum á heimilum sínum, að hlusta á talsmann ríkisstjórnarinnar reyna að koma í veg fyrir að kjör lífeyrisþega og öryrkja verði bætt og færð frá þeim smánarlegu upphæðum sem fólki er gert að búa við.