Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:20:23 (530)

2000-10-16 15:20:23# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að beina því til bankaráða Landsbanka og Búnaðarbanka að hefja viðræður um samruna og leita eftir forúrskurði samkeppnisráðs er í fullu samræmi við þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í þessum málum. Helstu rök sem tilgreina má fyrir sameiningu bankanna eru m.a.:

Hagkvæmni stærðarinnar tryggir betri þjónustu og styrkir samkeppnisstöðu gagnvart öðrum fjármálastofnunum.

Alþjóðleg íslensk fyrirtæki hafa nú náð þeirri stærð að mikilvægt er að hér séu stórar einingar á markaði sem geti sinnt þörfum þeirra og veitt þeim alhliða fjármálaþjónustu í samkeppni við erlendar fjármálastofnanir.

Með sameiningu bankanna verður til bankastofnun sem getur haslað sér völl á erlendum fjármálamörkuðum.

Síðast en ekki síst styrkir sameining bankanna stöðu þeirra á markaði og leggur grunninn að því að ljúka einkavæðingu þeirra á allra næstu árum.

Almenningur hefur þegar tekið virkan þátt í útboðum á hlutabréfum ríkisins í bönkunum og hefur það verið í fullu samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að stuðla að breiðri eignaraðild. Áður en frekari sala á hlutabréfum ríkisins í bönkunum fer fram verður að leita heimildar Alþingis. Með myndun stórrar einingar er enn líklegra að fram náist dreifð eignaraðild þar sem erfiðara verður fyrir einstaka hluthafa að kaupa ráðandi hlut í hinum nýja banka. Í því síðastnefnda felst ein veigamesta röksemdin fyrir því að bankarnir verði sameinaðir og síðan seldir í einu lagi fremur en að þeir verði seldir hvor í sínu lagi.