Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:24:46 (532)

2000-10-16 15:24:46# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði í upphafi ræðu sinnar að menn skyldu hafa í huga hvaða ákvörðun hefði verið tekin, þ.e. sú að láta bankaráðin hefja viðræður um samruna bankanna og að skoða lagalegar forsendur þess. Hún sagði að annað hefði í raun ekki verið ákveðið. Samt hefur það ítrekað komið þannig út í viðtölum við hæstv. ráðherra um helgina að málið sé frágengið, m.a. hefur hæstv. ráðherra talað um að hún hlakki til að fara að útdeila þeim peningum sem verði til við samruna þessara banka og þá hafi ríkisvaldið heldur meiri peninga til að setja í ýmis verkefni sem hæstv. ráðherra er líklega með í huga þegar hún lætur þessi orð falla.

Það hefur komið fram hjá öllum þeim sem hafa skoðað þessi mál og samruna banka á Norðurlöndunum að það hefur ekki skilað þeirri hagræðingu sem vænst var. Þar hafa þó verið stigin þau skref, sem ekki er gert hér, að gera þetta í fullu samráði við starfsmenn viðkomandi banka. Það er dálítið sérstakt að fylgjast með því að stóri hluthafinn, ríkið sem á 2/3 hluta í þessum bankastofnunum, valtar yfir aðra hluthafa, heldur ekki hluthafafund og ræðir málið þar áður.

Hverjir skyldu það nú vera sem eiga hlut að bankanum aðrir en ríkið? Það eru m.a. starfsmenn bankanna sem hafa undanfarið verið hvattir til að eignast hlut í bönkunum sínum. Við þá er ekki talað. Þetta er bara í tilkynningaformi. Sú leið sem t.d. var farin 1997 við stóra sameiningu banka í Svíþjóð hefur ekki orðið fyrir valinu. Þar var samið við 2.000 starfsmenn sem talið var að þyrftu að hætta þar um að þeir fengju fyrirframgreiddan lífeyri sem bankinn greiddi þar til þeir væru komnir á lögbundinn lífeyrisaldur. Um hvaða fjárhæðir var þar að ræða? Um var að ræða 1,5 milljarða sænskra króna. Ætli þetta nýja bákn sem þarna á að búa til gæti staðið undir slíkum skuldbindingum? Ég held að hér sé um að ræða, ef þessi ákvörðun verður að veruleika, stórpólitískt slys.