Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:29:13 (534)

2000-10-16 15:29:13# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að gagnrýna óðagot hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum. Enn einu sinni virðast tilviljanakenndar uppákomur í stjórnarsamstarfinu bak við tjöldin eiga að ráða niðurstöðu í stórmálum af þessu tagi. Handahófskenndar ákvarðanir eru teknar um skipulag á fjármálamarkaði og um meðferð ríkisins í mikilvægum stofnunum í almannaeigu.

Í öðru lagi er eðlilegt að spyrja: Hvers vegna? Er einhver brýn nauðsyn á því nú að sameina þessa banka?

Í þriðja lagi: Hvað með hagsmuni starfsfólksins? Er þetta undanfari þess að mörg hundruð manns, aðallega konum, verði sagt upp störfum?

Í fjórða lagi: Hvað með eignarhlut ríkisins í framhaldinu? Er þetta undanfari einkavæðingar á þessum þá yfirgnæfandi stærsta banka landsins og þá e.t.v. sölu til útlanda?

[15:30]

Í fimmta lagi: Er þetta verjanlegur kostur í ljósi vaxandi fákeppni á þeim markaði sem fyrir liggur?

Í sjötta lagi: Hvað með reglur um eignaraðild? Verða í tengslum við þetta sett ákvæði í lög til að tryggja dreifða eignaraðild? Ég minni í því sambandi á frv. sem liggur fyrir þinginu, flutt af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, um að 8% mörk verði sett í því sambandi?

Í sjöunda lagi: Hvað með hagsmuni annarra hluthafa? Eru þetta þau samskipti sem menn áttu von á þegar aðrir hluthafar, þar með taldir starfsmenn, voru hvattir til að kaupa eignarhlut í bönkunum á móti ríkinu?

Loks má spyrja, herra forseti, í ljósi orða hæstv. ráðherra áðan: Til hvers og af hverju var ríkisstjórnin að blanda sér í þetta mál? Ef það er svo eins og nú er látið í veðri vaka að þetta sé fyrst og fremst málefni bankaráðanna, af hverju voru þau þá ekki látin hafa frumkvæði að málinu? Nei, herra forseti. Hér er allt of mörgum stórum spurningum ósvarað til að það sé boðlegt fyrir Alþingi, sú aðkoma að málinu sem því er greinilega ætlað, að standa frammi fyrir gerðum hlut þegar allt hefur verið ákveðið.