Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:31:42 (535)

2000-10-16 15:31:42# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að ganga eigi sem fyrst fram í því að einkavæða þessi fyrirtæki. Ég tel að tími pólitískra lánveitinga sé liðinn. Ég tel að það sé liðin tíð að fyrirtækin séu rekin á öðru en viðskiptalegum forsendum og tel að það sé ekki sanngjarnt, hvorki gagnvart þeim sem eru að skipta við þessi fyrirtæki né heldur minnihlutaeigendum í þeim eins og þau eru núna. Ég tel að það sé liðin tíð að við séum með pólitískt möndl á fjármagnsmarkaði og engin pólitísk markmið séu með ríkisrekstri á einstökum sviðum á fjármagnsmarkaðnum.

Hvað varðar starfsfólkið þá vek ég athygli á því að þessi fyrirtæki eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands og það er ákveðin fagmennska og ákveðin vinnubrögð sem þurfa að vera viðhöfð hjá fyrirtækjum sem eru skráð á Verðbréfaþingi.

Varðandi hagræðingu vil ég segja að við blasir að það hlýtur að vera verkefni bankans eftir að búið er að sameina þessa tvo banka, ef af því verður, að vinna að hagræðingu. Hagræðing er endalaust viðfangsefni þeirra sem stjórna þessum fyrirtækjum hvort sem þau eru í einu eða tvennu lagi og því lýkur aldrei. Það hlýtur að vera hlutverk stjórnendanna að ganga þannig frá gagnvart starfsfólki að það sé ekki til þess fallið að draga úr móral og komi illa við bankann.

Ég vil að lokum segja að ég tel ólíklegt að samkeppnisyfirvöld hafi nokkra forsendu til að koma í veg fyrir sameiningu þessara banka. Heildarmarkaðurinn er 1.300 milljarðar, þ.e. fjármálamarkaðurinn á Íslandi. Efnahagsreikningur Landsbankans er um 15% af þeirri tölu og Búnaðarbankans um 9%, þannig að ég sé ekki að neinar forsendur séu fyrir því að samkeppnisyfirvöld grípi inn í þennan samruna.