Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:38:45 (538)

2000-10-16 15:38:45# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson heldur því fram að ekki sé óðagot í þessu máli. Óðagotið er samt svo mikið að hæstv. viðskrh. verður mörgum sinnum tvísaga. Hæstv. viðskrh. kemur hingað allt í einu og er á flótta frá sínum eigin ákvörðunum og segir: Það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir. Og hún ætlar ekki að taka ákvarðanir og ekki ríkisstjórnin, heldur á það að vera bankaráðið. Nú er það allt í einu markaðurinn sem á að fara að ráða.

Herra forseti. Hvers vegna var markaðurinn ekki frá upphafi látinn ráða í þessu máli eins og hv. þm. Pétur Blöndal ráðlagði t.d. ríkisstjórninni? Þetta er svo vanhugsað, herra forseti, að hæstv. viðskrh. veit ekki alveg hvað hún er að segja í stólnum og það sem hún segir hérna stemmir ekki við það sem hún er búin að segja í fjölmiðlum.

Herra forseti. Gagnrýnt var af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að hagsmunir annarra hluthafa en ríkisins væru fyrir borð bornir og áður var hæstv. ráðherra í reynd búin að skjóta byttu undir þennan leka hjá sér með því að segja að þriggja manna nefndin ætti líka að hugsa um hagsmuni hinna hluthafanna. Herra forseti. Hvað segir í Morgunblaðinu þegar þetta var kynnt, með leyfi hæstv. forseta?

,,Ríkið á meira en tvo þriðju hlutafjár bæði í Landsbanka og Búnaðarbanka. Því munu bankaráðin hafa náið samráð við þriggja manna starfshóp sem viðskiptaráðherra hefur skipað til að gæta hagsmuna ríkisins í sameiningarferlinu ...``

Herra forseti. Það sem viðskrh. er að segja hér er í algerri andstöðu við það sem hún hefur áður sagt og ég leyfi mér að kasta fram þeirri staðhæfingu, herra forseti, að það sé a.m.k. á gráu svæði að hæstv. ráðherra skuli með þessum hætti forsóma gersamlega hlut annarra hluthafa.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason og ýmsir framsóknarmenn sem hér hafa talað í dag eru bersýnilega á allt öðru róli en þingmenn Sjálfstfl. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason og hv. þm. Jón Kristjánsson töluðu í þá veru að það væri allsendis óvíst hvort framhaldið yrði síðan einkavæðing, hvort nokkuð yrði úr þessu. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir var auðvitað alveg viss um þetta. Herra forseti. Það sem stendur upp úr er að hér er flumbrugangur á ferðinni, pólitísk hrossakaup sem ekki er búið að hugsa til enda, en eitt er alveg ljóst að þetta ýtir undir fákeppni og þetta skaðar hagsmuni neytenda.