Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:39:42 (552)

2000-10-16 16:39:42# 126. lþ. 10.6 fundur 22. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:39]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sjónarmið að umræða þurfi að fara fram um dagakerfið og hvernig því verði best fyrir komið. Ég tel hins vegar meira en sjálfsagt að menn geti fengið að taka út veiðidaga sína öðruvísi en með því skylda þá til að taka þetta í einni striklotu í 24 klukkustundir. Sú regla er í raun sóknarhvetjandi og hættuleg vegna þess að menn reyna að nýta þessa daga sína algjörlega í botn og veiða sem allra mest á þessum dögum. Oft hlaða menn bátana meira en góðu hófi gegnir miðað við langar vegalengdir sem stundum þarf að fara. Þess vegna held ég að frá öllum bæjardyrum séð væri til mikilla bóta annaðhvort tímatalning eins og hv. þm. vék að eða þetta 12 tíma ákvæði sem við leggjum til sem skref í þessa átt.

Út af þeirri umræðu að ekki er víst að kvótakerfi þurfi í öllum tegundum þá vil ég aðeins segja að varðandi uppsjávarfiska eins og síld og loðnu, sérstaklega síld, held ég að veiðum á slíkum fisktegundum verði illa stjórnað nema með einhvers konar kvótakerfi þar sem um tegundir er að ræða sem hafa þann líffræðilega eiginleika að þjappa sér mikið saman og það er hægt að halda uppi góðum veiðum þó að stofninn minnki. Ég vil hins vegar benda á að við erum búnir að veiða úr íslenska síldveiðistofninum 100--110 þús. tonn núna í mörg ár og það er kannski fyrst núna sjáanlegt að hann sé að taka pínulítið stökk upp á við. Það er auðvitað brennandi spurning sem þyrfti að beina til Hafrannsóknastofnunar hvernig standi á því að síldarstofninn stöðvast í vexti við núverandi stærð?