Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:53:14 (558)

2000-10-16 16:53:14# 126. lþ. 10.7 fundur 21. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflahlutdeild skólaskipa) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Frv. tekur til 6. gr. núgildandi laga og efnismgr. hljóðar svo:

,,Ráðherra er heimilt að úthluta aflahlutdeild til skipa, allt að 500 þorskígildistonnum árlega, sem gerð eru út sem skóla- eða starfsþjálfunarskip fyrir ungt fólk. Þessa aflahlutdeild má ekki framselja til annarra skipa. Ráðherra setur nánari reglur um úthlutunina.``

Síðan segir í 2. gr.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Með frv. fylgir örstutt grg. sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta.

,,Í rúma tvo áratugi hefur Unglingaheimili ríkisins ásamt fleirum leitast við að kenna ungu fólki sjómennsku. Það hefur fengið tækifæri til að reyna sig á sjó við handfæra-, línu- og netaveiðar og fengið faglega þjálfun í sjómennsku.

Verkefninu hefur Karel Karelsson á bátnum Haftindi stýrt frá upphafi. Það hefur hlotið heitið Sjóliðaverkefni og er ætlað fólki á aldrinum 16--20 ára sem átt hefur erfitt uppdráttar félagslega og vill læra sjómennsku.

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að verkefnið hófst hefur þessi aðferð við að aðstoða unglingana í vanda þeirra reynst vel. Reksturinn hefur þó alltaf verið erfiður og stundum hefur orðið að gera hlé á verkefninu. Það sem stendur því fyrir þrifum nú er fyrst og fremst skortur á aflaheimildum. Eigi skólaskipið að koma að notum sem úrræði fyrir ungmenni í vanda verður að tryggja að það hafi heimildir til veiða svo að það geti þjónað hlutverki sínu.

Verkefnið hefur verið rekið í samstarfi við ýmsa aðila og ber þar helst að nefna Reykjavíkurborg, Hitt húsið, Hafnarfjarðarbæ, Reykjanesbæ, félagsþjónustuna í Reykjavík og jafnframt Stýrimannaskólann og Vélskóla Íslands.

Gert er ráð fyrir að allir nemendur útskrifist með réttindi til að stjórna 30 tonna bát og vélavarðarréttindi.

Mikilvægt er að halda úti slíku úrræði fyrir ungt fólk sem vill vinna við sjávarútveg og getur á þennan hátt aflað sér verkþekkingar.

Takist ekki að leysa vandann sem skortur á veiðiheimildum skapar gæti þetta ágæta verkefni lagst af og reynslan og þekkingin sem er til staðar glatast.

Hafrannsóknaskipið Dröfn hefur á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar sinnt veigamiklu hlutverki sem skólaskip á undanförnum tveimur árum. Skipið hefur verið gert út frá Reykjavík á vorin en á haustin hefur verið farið umhverfis landið og hafa nemendur 9. og 10. bekkjar grunnskóla fengið nasasjón af sjómennskunni og algengum vinnubrögðum á sjó.

Um 2000 grunnskólanemar hafa tekið þátt í þessu verkefni. Í venjulegri veiðiferð er veitt með botnvörpu, oft eru lagðar krabbagildrur og einnig eru handfærarúllur um borð. Nokkuð er breytilegt eftir veðri og sjólagi hvað tekið er fyrir hverju sinni, en að auki er nemendum sýnd fræðslumynd um sjómennsku. Að loknu tveggja ára tilraunatímabili verða skoðaðar leiðir til breyttra hátta og hefur m.a. verið rætt um að sveitarfélög taki við þessu verkefni.

Ljóst er að verði frv. þetta samþykkt þarf jafnframt að setja mjög skýrar reglur um úthlutun heimildanna til að koma í veg fyrir misnotkun.``

Hér er verið að hreyfa að mínu viti frekar litlu máli aflaheimildalega séð en stóru máli fyrir það verkefni sem hér hefur verið vikið að. Okkur flutningsmönnum, mér og hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, finnst þetta verkefni þess eðlis að ekki sé óeðlilegt að slíkar heimildir séu settar inn í 6. gr. laga um stjórn fiskveiða og ráðherra hafi heimildir til þess að úthluta allt að 500 þorskígildistonnum árlega til slíkra verkefna ef það mætti verða til þess að verkefnin gætu gengið snurðulaust og tiltölulega gott skipulag næðist milli ára.

Þetta vildi ég sagt hafa um verkefnið og vona að menn sjái hag í því að styðja málið. Ég held að hér sé í rauninni hreyft tiltölulega litlu máli í þorskígildum talið en stóru máli fyrir æsku landsins.