Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:01:24 (560)

2000-10-16 17:01:24# 126. lþ. 10.7 fundur 21. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflahlutdeild skólaskipa) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er um margt ágætt að mínu mati. Það tengist skólaverkefnum sem hafa verið rekin hér á landi um nokkurra ára skeið. Sennilega vita allir sem komið hafa nálægt umræðunni að skólaskip var byggt sérstaklega og gert út á vegum sjútvrn., skólaskipið Mímir sem var frekar lítið og kannski ekki hentugt sem slíkt. Við þekkjum öll örlög þess en það var fyrsti vísirinn að því að menn vildu halda úti sérstakri starfsemi til að kynna sjómennsku fyrir grunnskólanemendum. Í tengslum við það vöknuðu hugmyndir hjá hugsjónamönnum eins og Karel Karelssyni um að tengja mætti saman rekstur slíkra skipa og starfsemi félagsmálastofnunar. Hugmyndin var að koma ungum mönnum sem höfðu lent í vandamálum með líf sitt á réttan kjöl og sjómennskan væri góð aðferð til þess, að kenna þeim sjómennsku, koma þeim á sjó og gera út sérstakt skip til þess. Við þekkjum það vel frá árum árum að margur maðurinn náði áttum með því að fara til sjós, vera undir handleiðslu góðra manna og læra þau störf sem þar eru stunduð. Þannig var sú góða hugmynd sem Karel Karelsson fleytti af stað á sínum tíma þegar hann setti Haftind undir þetta verkefni.

Skólaskipin sjálf hafa ekki endilega verið í vandræðum með kvóta á meðan þau eru rekin sem rannsóknarskip og Hafrannsóknastofnun ber ábyrgð á rekstrinum. Þá mega þessi skip veiða það sem þau vilja og gera út með þeim veiðarfærum sem þeim sýnist og nánast hvar sem er. Það var meginástæðan fyrir því að við sem unnum að því að koma þessu skólaskipsverkefni á laggirnar að nýju fyrir nokkrum árum lögðum áherslu á að í þeim hluta verkefnisins sem snýr að kennsluþættinum innan grunnskólakerfisins og kynningunni kæmi Hafrannsóknastofnun inn í dæmið. Þá væri ekki vandamál með kvóta eða veiðiaðferðir eða hvert menn vildu fara.

Við náðum samkomulagi við Hafrannsóknastofnun um að fá afnot af Dröfn, hafrannsóknaskipinu, sem er heppilegra en mörg önnur skip vegna þess að þar er mjög sérhæfð áhöfn sem vön er rannsóknarferðum. Starfið nýtur góðs af starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar, fiskifræðingum, líffræðingum og öðrum sem fara í ferðir með skólaskipinu, sem kynna skólabörnunum vísindalegar aðferðir og vinnu vísindamanna um borð í hafrannsóknaskipi. Þarna fá nemendur að kynnast sjómennskunni en jafnframt að gægjast inn í líf þessara manna, sem byggist á rannsóknarverkefnum og að kanna þann afla sem kemur um borð.

Þetta verkefni komst á laggirnar og var hugsað fyrir landið allt. Það hefur verið unnið þannig og gengið mjög vel. Eftirspurn eftir því að fá að fara með þessu skipi hefur verið mjög mikil. Þó ekki hafi verið gert mikið í að auglýsa verkefnið hefur mikil aðsókn verið í skipið og skólar hér á höfuðborgarsvæðinu nýtt sér það sérstaklega. Aðsóknin hefur heldur minnkað út um land og ekki gott að segja hvers vegna það er en ég hygg að vel sé hægt að bæta úr því með frekari kynningu og meiri peningum í þetta verkefni.

Staðreyndin er sú að skólarnir hafa ekki mikið fé til rannsóknarferða eða til að kynna ungu fólki almenna starfsemi hér í landinu. Þess vegna situr það eftir sem kostar peninga en það er kannski ein ástæðan fyrir því að þetta hefur náð slíkum vinsældum, að það hefur ekki kostað neitt að fara með skipinu þar sem þetta er ókeypis þjónusta fyrir grunnskólanemendur. Það eina sem skólarnir hafa þurft að leggja út fyrir eru rútur fyrir börnin. Ekki hefur verið farið út í að innheimta neitt gjald þó hugmyndir um það hafi komið upp, einfaldlega vegna þess að við teljum að það mundi kippa stoðunum undan þessu kynningarstarfi.

Á vegum nefndar sem fjallar um málefni skólaskipsins hefur verið rætt um að í framtíðinni muni sveitarfélög og ríkið bera kostnað við rekstur skólaskips í sameiningu. Sveitarfélögin hafa því miður ekki sýnt því áhuga. Ég á því ekki von á öðru en þingið muni fljótlega komast að þeirri niðurstöðu að rekstur skólaskipsins verði áfram í höndum ríkisins. Ef það verður ekki þá leggst rekstur skólaskips einfaldlega niður.

Persónulega tel ég að það sé góð aðferð að láta ríkið gera út skólaskip með þessum hætti, að rannsóknarskip sé gert út af ríkinu sjálfu þar sem allar öryggiskröfur eru uppfylltar og farið að ýtrustu kröfum um aðbúnað í svona skipum. Málið snýst um ungviði okkar og við vitum að foreldrar eru alltaf hálfsmeykir eða varir um sig þegar um sjóinn er að ræða og vilja ekki senda börn sín út á lítil skip sem ekki eru jafntraust. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að halda þessum tengslum, halda þeim möguleika að gera út skólaskip sem tengist Hafrannsóknastofnun, stórt og öflugt með reyndri áhöfn. Það tel ég vera mjög mikilvægt.

Störf Karels Karelssonar á bátnum Haftindi eru annars eðlis en það skólaskipsverkefni sem ég hef verið að ræða um. Karel hefur verið styrktur fjárhagslega til að kaupa kvóta og gera út skipið sitt. Það hefur reynst honum erfitt að halda þessu gangandi.

Margir hafa lagt það til að skólaskipin fengju kvóta. Það er út af fyrir sig ágætishugmynd að leggja einhvern kvóta til skólaskipsverkefna. Vandamálið er samt að menn eru svo gjarnir á það að misnota slíka möguleika að það er erfitt að sjá hvernig þetta mundi geta gengið upp. Mjög margir vildu gjarnan gera út skólaskip ef þeir fengju til þess kvóta. Ég held að það hafi komið fram að þegar við vorum að ýta þessu verkefni úr vör á sínum tíma höfðu útgerðarmenn lítilla báta um allt land samband og vildu koma bátum sínum að í verkefnið. Oft var um gamla báta að ræða, vel við haldna, sem menn voru að reyna að finna fyrir verkefni og vildu gjarnan komast í þetta.

Ég held að það sé snúið að deila slíkum kvóta niður á skip en ég er ekki að segja að það sé ómögulegt. Allt er hægt. En ég vil samt segja að varðandi Haftind vonast ég til að við getum haldið áfram að styrkja það verkefni fjárhagslega. Það byggir náttúrlega á samstarfi við mjög marga aðila, stærstu bæjarfélögin á landinu. Það ætti að vera hægt að tengja það við önnur svæði landsins ef áhugi er til staðar. Ég veit að Karel hefur áhuga á því að tengjast með samningum við önnur bæjarfélög landsins þannig að hann gæti fengið fjármuni til rekstursins og tekið á móti fólki hvaðan sem er.

Ég hef ekki trú á að heppilegt sé að gera út mörg slík skip, að skólaskipum sé dreift um allt land með nokkrum tonnum á hvert skip. Ég átta mig ekki almennilega á því hvernig það mundi gagnast rekstri skólaskipa eða efla það starf sem þegar er hafið með skólaskipinu Dröfn eða Haftindi eins og þau skip eru rekin í dag.

Herra forseti. Ég fagna því að rætt skuli um þessi mál. Umræðan er af hinu góða og ég held að því sem fleiri taka þátt í henni því betra. Hafi einhvern tímann verið þörf á að kynna ungu fólki þau störf sem fram fara á sjó þá er það að sjálfsögðu núna og á komandi árum og áratugum. Þjóðin fjarlægist sífellt þessa undirstöðuatvinnugrein eftir því sem lengra líður. Sérhæfingin er orðin meiri og sjómenn að verða fámenn stétt á stórum skipum. Ég held að sögulega séð og af því að við byggjum afkomu okkar á sjávarútvegi og munum gera það um ókomna tíð, þá sé mjög nauðsynlegt og eðlilegt að ríkissjóður og Alþingi stuðli að því að styrkja tengslin milli sjávarútvegs og þjóðarinnar í heild.