Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:41:44 (567)

2000-10-16 17:41:44# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:41]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held í umræðunni hafi komið fram ýmisleg veigamikil rök fyrir því að þessi löggjöf sé endurskoðuð í heild sinni, þó svo e.t.v. sé ekki ástæða til að flýta sér neitt í þeim efnum nema kannski hvað varðar þann afmarkaða þátt sem verið er að leggja til með frv.

En mér finnst það vera spurning, herra forseti, hvar endurskoðun þessara laga á að fara fram. Hefur ríkisstjórnin hugsað sér að setja einhvern starfshóp á laggirnar, nefnd og koma þessari endurskoðun í framkvæmd með þeim hætti eða lítur hæstv. ráðherra svo á að það verði gert með vinnu sem fari þá fram eingöngu lokuð inni í núverandi stjórnarflokkum? Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að sú endurskoðun sem hann er að ræða um að sé nauðsynleg, hvernig sér hann fyrir sér að hún fari fram þannig að sem best umfjöllun og umræða geti farið fram um þessi mikilvægu mál?