Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:44:18 (569)

2000-10-16 17:44:18# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:44]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru vissulega tíðindi sem hæstv. utanrrh. og formaður annars stjórnarflokksins hefur boðað. Fyrst sem kom fram frá honum í svari við fyrirspurn við háskólann á Bifröst og síðan núna að hann telji nauðsynlegt og tímabært að hefja endurskoðun á þeim ákvæðum sem banna erlendum fjárfestum að festa fé sitt eða kaupa hlutabréf í fyrirtækjum í sjávarútvegi.

Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri eina undantekningin á fjárfestingu útlendinga á Íslandi. Það er því miður ekki svo, því í öðrum lögum, þ.e. jarðalögum, voru sett ákvæði um það sem koma áttu og koma eiga í veg fyrir að útlendingar geti fest kaup af bændum á bújörðum þeirra. Það var gert með því að til viðbótar við allar þær kvaðir sem eru á viðskiptafrelsi bænda með bújarðir í jarðalögum, var það ákvæði sett inn í þau lög að bónda væri ekki heimilt að selja til neins aðila sem ekki hefði annaðhvort búið á jörðinni eða í næsta nágrenni hennar í þrjú ár.

[17:45]

Þetta var enn ein kvöðin sem sett var á bændur í gildandi lögum um viðskipti með eignir sínar en eins og hv. þingmönnum er kunnugt geta bændur ekki ráðstafað bújörðum sínum, ekki einu sinni til erfingja sinna nema með leyfi sérstakrar jarðanefndar sem jafnvel eru dæmi um að hafi ógilt kaupsamninga milli bónda og áhugaaðila um kaup og skyldað bóndann til að selja þriðja aðila sem hann hafði sjálfur ekki áhuga á að selja upphaflega.

Þetta eru mjög óeðlilegar kvaðir og í þessu seinna tilviki er það náttúrlega svo að á sama tíma og ríkið er að reyna að draga úr hefðbundnum búskap og kaupa upp framleiðslurétt bænda er verið að koma í veg fyrir að bændur geti nýtt bújarðir sínar með þeim hætti sem þeim er hagkvæmastur eða selt þeim sem kaupa vill.

Við samfylkingarþingmenn erum samkvæmir sjálfum okkur í þessu efni sem öðrum. Við erum því ekki aðeins hér með frv. til laga um breyting á lögum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, þ.e. hvað varðar sjávarútveginn, heldur höfum við einnig lagt fram á þessu þingi frv. er gerir ráð fyrir að þessi hörðu ákvæði jarðalaga, sem takmarka ráðstöfunarrétt bónda á eignum sínum, verði afnumin.

Herra forseti. Ég er ekki alveg sammála hæstv. utanrrh. um að eignarréttur sé að fullu tryggður í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Ég átti sjálfur verulegan þátt í að setja það lagaákvæði inn og það hefur komið í ljós í dómum sem fallið hafa um mál er tengjast stjórnkerfi fiskveiða að dómstólar líta svo á að þessi ákvæði, sem voru höfð í flimtingum hér á árum áður, um þjóðareign Íslands á fiskimiðunum, halda talsvert sterkt. En það sem á vantar til að fullkomna tilgang þessara ákvæða í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða er náttúrlega betri skilgreining á því hvað þjóðareign þýðir, hver er eignarréttarleg skilgreining þess hugtaks. Það hefur auðlindanefnd gert með því að leggja til að nýtingarréttur slíkrar þjóðareignar verði skilgreindur, þ.e. þetta er ekki eign sem heimilt er að veðsetja eða ríkisvaldið eða meiri hluti Alþingis getur selt heldur aðeins ráðstafað nýtingarréttinum á. Og eðlilegt er að það sé gert með ákvæði í stjórnarskrá, bæði vegna þess að nauðsynlegt er að tryggja þetta frekar en gert er í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða og auk þess gefur það augaleið að ekki þyrfti annað en einfaldan meiri hluta á Alþingi til að breyta þessu þjóðareignarákvæði í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, fella það út eða gerbreyta því, en það er ekki svo auðvelt að gera slíkar breytingar ef ákvæði þess efnis er í stjórnarskrá.

Herra forseti. Ég vakti athygli á --- ég ætla nú ekki að endurtaka rök mín frá því ég talaði um þetta mál hér fyrir tveimur dögum síðan --- og benti á að það stæðist ekki skoðun að á sama tíma og Íslendingar væru að undirbúa sig undir það í norrænu samstarfi að laða erlenda fjárfesta hingað til lands með því að eiga samstarf við Norðurlönd, ekki síst Norðmenn, um útboð á verðbréfaþingi, að þá samræmdist það að sjálfsögðu ekki þeirri stefnu að svo væri háttað að mörg áhugaverðustu fyrirtækin sem skráð eru á Verðbréfaþingi á Íslandi eru í þeirri stöðu að erlendum aðilum er ekki heimilt að festa kaup á hlutabréfum í þeim.

Til þess að fylgja þessu eftir hef ég í dag lagt fram fyrirspurn til hæstv. viðskrh. þar sem ég spyrst fyrir um hvaða félög og fyrirtæki séu nú skráð á Verðbréfaþingi og hvaða félög og fyrirtæki sé þannig háttað um sem skráð eru á Verðbréfaþingi að erlendir aðilar megi ekki undir neinum kringumstæðum festa kaup á hlutabréfum í þeim eða bjóða fram áhættufé. Og það verður vissulega áhugavert að velta því fyrir sér og skoða það svar og sjá hvernig Íslendingar ætla að sækja út á samkeppnismarkaðinn um erlenda fjárfesta með svo að segja aðra höndina bundna á bak aftur, þ.e. að í mörgum af áhugaverðustu fyrirtækjunum sem Íslendingar geta boðið erlendum fjárfestum er þeim ekki heimilt að festa fé, og vonast ég til að hæstv. viðskrh. geti innan mjög fárra daga svarað fyrirspurn minni.

Virðulegi forseti. Í umræðunum á Alþingi hefur komið fram að fulltrúar allra þeirra flokka sem hafa tekið til máls eru þeirra skoðunar að tímabært og nauðsynlegt sé að endurskoða ákvæðin sem banna erlendum aðilum að fjárfesta í sjávarútvegi, veiðum og vinnslu. Ef marka má það að hv. þm. Pétur Blöndal tali fyrir hönd Sjálfstfl. þá hafa allir flokkar aðrir en vinstri grænir tekið undir þetta sjónarmið. En nú er það náttúrlega spurning: Talar hv. þm. Pétur Blöndal fyrir hönd Sjálfstfl. eða ekki? Því verður ekki svarað nema einhver annar gefi sig fram. (Gripið fram í.) Það er ekki verra, þá gerist það ekki sem ég var farinn að óttast að sjálfstæðismenn og vinstri grænir ætluðu að vera sammála í hverju málinu á fætur öðru, en það er þá ekki í þessu máli, vænti ég.

En af því að hæstv. sjútvrh. situr hér og hefur kynnt sér þann málatilbúnað sem fram hefur farið og málflutning þeirra þingmanna sem talað hafa og þar á meðal hlýtt á ræðu hæstv. utanrrh., sem raunar er starfandi forsrh. í dag eftir því sem ég veit best, er náttúrlega eðlilegt að ég spyrji hæstv. sjútvrh.: Mun hann fylgja þessum málflutningi eftir með því að beita sér fyrir því í samvinnu við þá væntanlega aðra ráðherra í ríkisstjórninni, m.a. hæstv. iðnrh. en undir hann heyrir fiskiðnaðurinn, að þessi mál verði tekin til endurskoðunar? Telur hann tímabært að gera það? Mun hann hafa frumkvæði um það og mun hann gefa Alþingi kost á því, þ.e. stjórnarandstöðunni, að koma að þeirri endurskoðun til að reyna að tryggja að sem mest sátt geti orðið um þær breytingar sem nauðsynlegt er að gerðar yrðu? Ég held að nauðsynlegt sé, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. svari þessum spurningum.