Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:05:49 (577)

2000-10-16 18:05:49# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:05]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi mætavel hvað hæstv. sjútvrh. var að segja. Hann var að segja allt annað en þeir tveir hv. þm. Sjálfstfl. sem hér hafa talað á eigin vegum í málinu fram að þessu.

Hæstv. sjútvrh. var ekki að segja eins og við í Samfylkingunni og hæstv. utanrrh. og fleiri að nauðsynlegt sé og tímabært að endurskoða lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Hæstv. sjútvrh. var að segja að nauðsynlegt sé að skoða hvort nauðsynlegt sé að hefja skoðun á málinu. Hann ætlar sem sé að skoða fyrst hvort nauðsynlegt sé að hefja skoðun á því hvort nauðsynlegt sé að breyta lögunum. Ég skildi þetta mjög vel, bara mjög vel.

Og ég undra mig á því að þessi málsvari frjálsra viðskipta skuli ætla að leggja upp með þetta veganesti. Hann situr í ríkisstjórn sem ætlar að fara að laða að erlenda fjárfesta til landsins og hann ætlar að bjóða þeim upp á pakka þar sem þeim er bannað að fjárfesta í helmingi fyrirtækjanna sem á Verðbréfaþingi eru. Og svo ætlar hann að hefja athugun á því hvort hefja eigi athugun á því að breyta lögunum. Ég skildi alveg nákvæmlega hvað hann var að segja. Hann var að segja nákvæmlega það sama og vinstri grænir. Hann var að segja nákvæmlega það sama. Hjarta hans slær vinstra megin og er grænt og það er bara ekkert við því að segja. En svona bara er þetta, herra forseti.