Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:17:45 (582)

2000-10-16 18:17:45# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að vera afskaplega óskýr í máli í dag ef hæstv. ráðherra hefur ástæðu til að skilja orð mín svona. Málið er að auðlindanefndin leggur til að viðskipti með veiðiheimildir verði frjálsari en verið hefur. Það liggur alveg fyrir. Það sem ég er einfaldlega að segja og minni á er að samstaðan, sem hefur verið töluvert mikil, um að hleypa ekki erlendum aðilum inn í sjávarútveg á Íslandi byggðist á því og hefur gert að menn hafa óttast að útlendingar gætu náð yfirráðum yfir auðlindinni í gegnum það kerfi sem verið hefur í gildi, þar sem menn hafa getað keypt sig inn í auðlindina, eignast veiðiheimildirnar og eignast í raun og veru aðganginn að Íslandsmiðum. Þannig yrði arðurinn af fiskimiðunum fluttur úr landi. Það sem menn þurfa þá að hugsa um núna þegar rætt er um það í alvöru að hleypa útlendingum í fjárfestingar í útgerð hér á landi er að tryggja að menn geti verið öruggir um að erlendir aðilar eignist ekki réttinn til þess að veiða á Íslandsmiðum og að arðurinn af þeim nýtingarrétti renni úr landinu. Nákvæmlega þetta hljóta menn að hugsa um.

Þannig skildi ég hæstv. utanrrh. áðan þegar hann talaði um þessi tvö atriði þó að hann talaði um þau hvort í sínu lagi í ræðu sinni, að hann ætti við að tryggja þyrfti eignarrétt þjóðarinnar og hann er auðvitað gagnslaus ef arðurinn rennur úr landi.