Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:21:33 (583)

2000-10-16 18:21:33# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:21]

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu fjárfesting erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri með áherslu á sjávarútveg, veiðar og vinnslu. Ég vil segja það um þetta mál að mér finnst mikilvægt að við löðum að erlenda fjárfesta að íslensku atvinnulífi og þá ekki síst að fullvinnslu sjávarafurða og öðrum matvælaiðnaði. Það er mjög nauðsynlegt og hollt fyrir úrvinnsluiðnaðinn að við sköpum sambönd við erlenda aðila og sækjum þekkingu og fjármagn, hafi menn á því áhuga, til uppbyggingar á íslensku atvinnulífi.

En ég hef hins vegar fyrirvara á þegar um er að ræða veiðar í íslenskri lögsögu og eignarhald á sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég sé ekki að hægt sé að tryggja það ef erlendum aðilum er hleypt inn í íslenskan sjávarúveg, þ.e. inn í veiðar, útgerðina, með góðu móti að öruggt sé að ekki sé verið að færa yfirráð yfir auðlindinni úr landi. Þessi fyrirvari er settur af minni hálfu vegna þess að hér er náttúrlega um fjöregg þjóðarinnar að ræða. Hér er um að ræða svo gríðarlega stóran þátt í íslensku efnahagslífi að það er ekki rétt að líta á veiðar í íslenskri landhelgi einungis sem atvinnumál heldur er í raun um að ræða mjög stóran hlekk í íslensku efnahagslífi. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera að saman fari hagsmunir þeirra sem veiða eða eigenda útgerðarinnar og þjóðarinnar sjálfrar.

Í þessu sambandi vil ég nefna þá kröfu sem nú er uppi um að allur fiskur fari á markað. Sú krafa tekur ekki tillit til hagsmuna landvinnslunnar heldur er þetta krafa um hámarksarðsemi fyrir veiðarnar. Ég óttast, virðulegur forseti, að ef eignarhald í íslenskum sjávarútvegi færist á hendur erlendra aðila þá tækju menn ekki í jafnríkum mæli og nú tillit til hagsmuna heildarinnar.

Mér finnst sjálfsagt að skoða öll þessi mál og vil ekki útiloka neitt fyrir fram en ég ítreka þessa afstöðu mína að ég er ekki sannfærður um að rétt sé að hleypa erlendum aðilum í fjárfestingu í íslenskum útvegi.

Það getur vel verið að það skapi ákveðin vandamál að mörg sjávarútvegsfyrirtæki eru bæði í veiðum og vinnslu en ég tel það samt ekki rök fyrir því að við heimilum erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

Að lokum vil ég segja, virðulegur forseti, að mér finnst áhyggjuefni og vil láta það koma fram hér hversu erfitt rekstrarumhverfið er í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir. Ég hvet til þess að menn ræði það af fullri alvöru, einkum og sér í lagi nú þegar tillögur auðlindanefndar liggja fyrir.