Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:25:54 (584)

2000-10-16 18:25:54# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Hér hefur farið fram ágæt umræða um það frv. sem hér liggur fyrir og er rétt að árétta að snýst eingöngu um fiskvinnslu en ekki útgerð. Einnig hafa menn farið hér yfir þá möguleika sem okkur bjóðast í dag og þá stöðu sem íslenskur sjávarútvegur er í, bæði vegna þess samstarfs sem er að hefjast milli kauphallanna og vegna þess umhverfis sem atvinnurekstur hér eins og annars staðar óhjákvæmilega hrærist í og við þurfum að taka tillit til á hverjum tíma.

Ég tek eftir því, herra forseti, að þeir tveir hæstv. ráðherrar sem hér hafa talað eru ekki algjörlega samferða gagnvart þessu efni. Annars vegar talar hér hæstv. utanrrh. og er á þeirri skoðun sem hann hafði áður kynnt að ástæða væri til að endurskoða þessa löggjöf í ljósi þess veruleika sem við blasir. Hins vegar talar hér hæstv. sjútvrh. og telur ekki fullreynt með þá löggjöf sem við nú búum við. Hér er nálgun manna greinilega dálítið mismunandi ef hún stangast hreinlega ekki á.

Ég var satt að segja, herra forseti, dálítið undrandi á málflutningi hæstv. sjútvrh. vegna þess að mér fannst á ákveðnu tímabili sem hann talaði mun meira opinskátt um nauðsyn þess að þessir hlutir væru endurskoðaðir. Hann var þá í raun að taka undir með forráðamönnum ýmissa fyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa nú um skeið rætt um nauðsyn þess að endurskoða löggjöfina.

Mér finnst ástæða til, herra forseti, að fara yfir það hér vegna orða hæstv. sjútvrh. að í auðlindanefnd sátu níu fulltrúar. Sex þeirra voru kosnir af stjórnarmeirihlutanum á Alþingi þannig að það er alveg ljóst hvernig valdahlutföll gátu verið í þessari nefnd. Ég held að það sé tillögum nefndarinnar ekki til framdráttar ef menn vilja við þá endurskoðun sem hér á að fara fram endilega eyrnamerkja þær eða fara mjög nákvæmlega yfir þessi hlutföll, þó að ég geri það hér að gefnu tilefni. Ég held að það sé betra að menn geti horft málefnalega á það sem fram kemur í áliti nefndarinnar og skoðað það í því samhengi sem að mínu mati liggur algjörlega fyrir að verður að gera. Annars vegar er gerð tillaga um breytingar á stjórnarskrá og það er grundvöllurinn, í fyrsta lagi breytingar sem skýra út hvernig eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindinni er háttað og hvernig afnotarétturinn er síðan skilgreindur. Síðan koma tillögur og umfjöllun nefndarinnar um meðferð auðlindanna.

Hæstv. sjútvrh. gat þess hér áðan að í áliti nefndarinnar væri fjallað um að frelsi varðandi framsal ætti að verða meira og einnig að hver aðili gæti vélað með meiri aflahlutdeild en það er nú ekki rétt. Tillögur nefndarinnar ganga ekki út á að þakinu verði lyft, eins og það er stundum orðað. Hins vegar kunna einstaka nefndarmenn að hafa tjáð sig um það einhvers staðar en það er ekki hluti af tillögum nefndarinnar og ekki í því samhengi að hin tillagan er sett fram, en það er nákvæmlega, herra forseti, í því samhengi að afnotarétturinn sé afmarkaður eins og gert er ráð fyrir í stjórnarskrárákvæðinu. Þannig hangir þetta allt saman.

[18:30]

Herra forseti. Ég held að sú umræða sem hér hefur farið fram um þetta frv. og hefur farið mun víðar en efnið gaf beinlínis tilefni til hafi verið þörf. Það er tímabært að fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri séu ræddar. Eins og menn hafa komið að eru nokkur ár síðan lögin voru aðlöguð þeim veruleika sem við bjuggum þá við og e.t.v. þarf að aðlaga þau aftur að veruleikanum. Menn þurfa að vinda sér í það verk að skoða hvort ástæða er til þess. Í ljósi umræðunnar, herra forseti, á ég frekar von á því að slík endurskoðun muni fara fram og að breytingar verði gerðar á lögunum.