Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:43:10 (592)

2000-10-16 18:43:10# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:43]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að inna einn nefndarmanna í auðlindanefndinni eftir skilningi á áliti nefndarinnar hvað varðar auðlindir og skilgreiningar á þeim sem eiga að vera í þjóðareigu. Eins og ég hef skilið álit nefndarinnar þýðir það að þeir sem hafa nýtt fiskimiðin í 1100 ár, eins og í kringum Vestmannaeyjar, eigi engan rétt umfram aðra landsmenn í þeim efnum. Þeir eru algerlega jafnsettir þeim sem aldrei hafa þangað komið og aldrei nýtt fiskimiðin í kringum Vestmannaeyjar. En á hinn bóginn eiga þeir sem nýtt hafa heitt vatn í jörðu til hitaveitu í 50 ár sérréttindi umfram aðra. Með öðrum orðum, að þau réttindi sem fylgja landareign, eins og nýting á heitu vatni, eru ekki, samkvæmt skilgreiningu auðlindanefndar ef ég skil það álit rétt, auðlindir sem eiga að vera í þjóðareigu þannig að þeir sem njóta góðs af þessum auðlindum eiga að hirða allan afraksturinn af þeim í eigin vasa og skila engu í vasa annarra.

Nú er það þannig eins og með hitaveituna á Reykjavíkursvæðinu að hún er afar ódýr og hagkvæm og bætir búsetuskilyrði manna hér mjög mikið. Á sínum tíma þegar ég leit á þessi mál, áætlaði ég að ávinningur þeirra væri um 4 milljarðar á ári miðað við meðalorkukostnað á þeim tíma. 3 milljarðar renna í vasa þeirra sem skipta við veituna, þeir fá ávinninginn í formi lægra gjalds, einn milljarður rann í sjóði borgarinnar. Þetta er ávinningur af nýtingu auðlindar sem er notaður staðbundið. Hvers vegna álítur þá nefndin ekki að nýting í 1100 ár á auðlindum í kringum Vestmannaeyjar skapi einhver forréttindi Eyjamanna til þess?