Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:46:52 (594)

2000-10-16 18:46:52# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einhver misskilningur ef menn halda að auðlindanefndinni hafi bara verið falið að fjalla um málin eins og þau stóðu þegar nefndin var skipuð. Eins og segir í ályktuninni átti nefndin að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða í þjóðareign. Sem flutningsmaður get ég alveg upplýst að það þýddi að nefndin átti að fara yfir sviðið og taka afstöðu til auðlinda, þ.e hvort nefndin legði til að þær auðlindir yrðu í þjóðareign eða ekki.

Það virðist, herra forseti, sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi álitið að það sem tilheyrði landi, réttindi undir landi, ættu að vera séreign. (Gripið fram í: Nei, það var Framsóknarflokkurinn sem lagði það til.)

Ég spyr um afstöðu þingmannsins. Af því að það er upplýst að hann telur að þeir sem nota heitt vatn í jörðu eigi að líta á það sem séreign en þeir sem nýta fiskimið undan ströndum landsins eigi engan séreignarrétt til þess þá spyr ég hv. þm. hvers vegna og hvernig hann rökstyðji þá afstöðu sína að byggðarlög sem nýtt hafa þá auðlind í 1100 ár eigi engan rétt þegar um er að ræða fisk í sjó. Gildir þar enginn sérstakur réttur umfram aðra til að nýta þá auðlind? En þeir sem hafa nýtt heitt vatn í 50 ár mega fara með það sem séreign og þurfa ekki að láta aðra landsmenn njóta þess með sér.