Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:59:41 (601)

2000-10-16 18:59:41# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem hv. þm. sagði í ræðu sinni áðan þá vil ég í fyrsta lagi segja að þegar hann talar um eyðibyggðastefnu þá verðum við að átta okkur á því að tveir valkostir eru í stöðunni að því er varðar stjórn fiskveiða. Annars vegar er að gefa veiðar gersamlega frjálsar þar sem hver getur sótt eins og hann vill. Allir okkar fræðimenn segja okkur að það sé ekki hægt, þ.e. þá yrði styrkur og sóknargeta flotans það mikil að við gengjum mjög á stofnana sem væri mjög hættulegt fyrir íslenskt efnahagslíf.

[19:00]

Þá er hinn kosturinn sá að stjórna fiskveiðunum og eru uppi ýmis sjónarmið um hvernig það skuli gert. Um nokkurt skeið hefur verið aflamarkskerfi. Þegar hv. þm. talar um eyðibyggðastefnu skulum við ekki gleyma því að ef fiskveiðunum er stjórnað með einhverjum hætti, þá gerum við það þannig að það er verið að útiloka á einhvern hátt þá sem búa næst auðlindinni vegna þess að byggðirnar sem eru við sjávarsíðuna urðu fyrst og fremst til út af nálægðinni við sjóinn. En um leið og við förum að stýra þessu hlýtur það með einum eða öðrum hætti að ganga gegn hagsmunum þessara byggðarlaga, það segir sig sjálft. Áður fyrr var frjáls aðgangur og þá urðu byggðirnar til vegna þessa aðgangs en um leið og við förum að stýra þessu, hljótum við að setja einhverjar kvaðir á byggðirnar.

Mér komu því á óvart þau viðhorf sem hann setti fram um eyðibyggðastefnu án þess að leggja þá til að taka upp að nýju frjálsar fiskveiðar. Það er það eina sem getur komið í veg fyrir að þessar byggðir þurfi undan að láta því þær urðu til af nálægðinni við sjóinn. Það er bara í eðli sínu þannig að ef menn fara að stjórna fiskveiðunum kemur það niður á möguleikum þessara byggðarlaga.