Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 19:04:05 (603)

2000-10-16 19:04:05# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[19:04]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur í umræðunni því ég sagði að það væru tveir valkostir við að stjórna fiskveiðum. Annars vegar að gefa þær frjálsar eða reyna að stjórna þeim. Ég sagði þá ekki um leið ef við reynum að stjórna þeim hvaða kerfi það væri, það hljóta að vera mismunandi möguleikar í þeim kerfum.

Þegar kemur að stjórn fiskveiða eru vitaskuld uppi hugmyndir um það hvort eigi að reyna að miðstýra þessu þannig að byggðir haldist óbreyttar o.s.frv. eða þær miðstýringar hafa verið reyndar mjög víða um heim, þær hafa hreinlega ekki gefist vel. Eða fara hina leiðina þar sem við reynum að skipuleggja veiðarnar þannig að horft sé til hagkvæmni heildarinnar.

Ég er ekki endilega að taka upp hanskann fyrir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi enda, eins og fram kom í umræðunni áðan, og þá hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, er niðurstaða auðlindanefndarinnar ákveðið samkomulag og afstaða Samfylkingarinnar út af fyrir sig, ef svo má að orði komast, birtist vitaskuld í því frv. sem hún lagði fram.

Hins vegar má glöggt greina að Samfylkingin er eins og flestir aðrir ábyrgir stjórnmálaflokkar tilbúin að reyna að ná einhverri niðurstöðu í málefnum í stórum málum sem varða þjóðina því það væri nú merkur stjórnmálaflokkur sem væri ekki tilbúinn til að reyna að leita lausna á ágreiningsmálum í samfélaginu. Það er einu sinni þannig að pólitíkin gengur að stórum hluta út á að menn nái niðurstöðu, þar eru menn uppi með mismunandi sjónarmið, enda skipa þau mönnum í flokka.

Aðalmálið er að stjórnmálaflokkar sýni þann þroska að þeir geti tekið þátt í því að komast að einhverri niðurstöðu. Í þessu tilviki er niðurstaða auðlindanefndar samkomulag sem er langt frá því að vera skrifað af Samfylkingunni. Hitt er að a.m.k. þeir sem sátu í auðlindanefndinni standa að samkomulaginu enda gerðu þeir ekki fyrirvara að álitinu.