Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 19:34:42 (611)

2000-10-16 19:34:42# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[19:34]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Upphaf málsins var að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hélt því fram að skilningurinn á málinu hefði komið fram af hálfu þeirra sem fluttu málið í upphafi og þar sem ég var einn flutningsmanna þá ætti ég að vita betur.

Ég er búinn að hrekja það með gögnum að ummæli þingmannsins um meiningu flutningsmanna er rangur enda er ekkert um það deilt lengur. Ég hef líka bent á að þó að menn setji lög þá megi breyta lögum og fyrir því liggja lærðar greinar, m.a. eftir hv. fyrrv. þm., Ólaf Jóhannesson, að setja megi eignarréttindum skorður að þessu leytinu til.

Þingmenn Samfylkingarinnar eiga eftir að svara því hvers vegna þeir halda sig við það sjónarmið að ekki hafi átt að svara spurningunni um hvaða auðlindir eigi að vera í þjóðareign og hverjar ekki. Mér finnst dálítið langt gengið af þeirra hálfu að líta svo á og svara því til að það séu þingmenn stjórnarflokkanna sem svari fyrir þá í þessum efnum.