Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 19:37:15 (613)

2000-10-16 19:37:15# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., KHG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[19:37]

Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel útrætt það mál sem ég hef skipst á skoðunum um við þingmenn Samfylkingarinnar. En mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forseta. Nú hefur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson í tvígang vegið að mér persónulega og sagt að hann þurfi að tala alveg sérstaklega hægt og kannski hafi hann ekki talað nógu hægt og brigslað mér um að skilja ekki það sem hann hefur fram að færa. Mér finnst ástæðulaust, herra forseti, þó að menn greini á í pólitískri umræðu að grípa til þess að gera lítið úr andstæðingum sínum.

Herra forseti. Alveg sérstaklega finnst mér ástæðulaust að forseti sitji aðgerðalaus í stól forseta þegar slík ummæli falla og það tvisvar frekar en einu sinni. Því hlýt ég spyrja hæstv. forseta: Hverju sætir það?

(Forseti (ÁSJ): Forseti sá ekki ástæðu til að veita hv. 6. þm. Suðurl. áminningu fyrir ummæli í ræðustól. )