Matvæli

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 13:41:35 (615)

2000-10-17 13:41:35# 126. lþ. 11.5 fundur 74. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég kem upp til að fagna þessu framkomna frv. frá hæstv. umhvrh. Það er ljóst að kampýlóbakter-sýkingar geta valdið fólki miklu heilsutjóni og því mjög brýnt að yfirvöld grípi til allra tiltækra ráða til að stemma stigu við smithættu og sýkingum. Ég hygg að þetta frv. sé skref í rétta átt til öflugra eftirlits og neytendaverndar hér á landi. Það er brýnt að auka fræðsluna, ekki síst fyrir starfsmenn matvælafyrirtækja, um rétta meðferð matvæla og um smitleiðir og efla þar með námskeiðahald á þessum vettvangi. Einnig tel ég fulla ástæðu til þess að fagna hér ákvæði um tilkynningarskyldu telji menn minnsta grun leika á því að um sýkingu sé að ræða.

Ljóst er og reynsla síðasta árs kennir okkur að víða hefur pottur verið brotinn í þessum efnum. Því er ekki seinna vænna fyrir íslenska neytendur að þessi vernd verði efld með þessum hætti og víst er að hv. umhvn. mun taka þetta mál til rækilegrar og jákvæðrar skoðunar.