Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 13:56:20 (619)

2000-10-17 13:56:20# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Varðandi þetta frv. til laga, um breyting á lögum um landmælingar og kortagerð, sem hér liggur fyrir vil ég í fyrsta lagi taka undir þær breytingar sem hér eru kynntar varðandi stjórn stofnunarinnar. Ég gat þess líka á síðasta þingi þegar frv. kom þá fram að ég teldi að þetta væri einmitt samkvæmt stjórnsýslulögum eins og þau eru nú, að forstjóri stofnunarinnar skuli bera ábyrgð á stofnuninni gagnvart ráðherra og ráðherra síðan gagnvart Alþingi, þannig að þessar stjórnir sem verið er að setja yfir A-hluta stofnanir ríkissjóðs með forstjórum eiga sér ekki neina stjórnsýslulega réttarstöðu og því, eins og fitjað hefur verið upp á á undanförnum árum og menn eru nú almennt að átta sig á, er stjórnsýslulega rangt.

Ég fagna því að hæstv. umhvrh. skuli hreinsa til í þessu. Það geta verið ýmsar skoðanir á því hvort stjórnir fyrir svona A-hluta stofnanir séu nauðsynlegar eða ekki en það þýðir ekki að setja eitthvert apparat á laggirnar sem ekki á sér lagalega stoð. Ég fagna því að þarna sé kveðið alveg skýrt á um ábyrgð og skyldur hvers og eins sem þarna fer.

Þá vil ég í öðru lagi, herra forseti, víkja að 4. gr. sem fjallar um mælingamenn og vottun mælingamanna. Mér er ekki alveg ljóst hvað hæstv. ráðherra á við, hvort þarna sé verið að stofna nýja starfsstétt sem ætlunin sé að heiti mælingamenn Íslands, á hverra ábyrgð þeir eigi þá að starfa og hvar þeir eigi þá að starfa. Nú vitum við að slík verkefni eru úti um allt land og þær mælingar sem hér er vitnað til og hafa verið leystar af hendi hafa verið unnar af ýmsum aðilum, svo sem í ráðuneytum, hjá búnaðarsamböndum, vegagerðarmönnum, verkfræðistofum og byggingarfulltrúum. Úti um allt land, allan hringinn í kringum landið eru störf á þessum vettvangi í gangi og unnin af fólki sem til þess hefur þekkingu.

Það er svo sem góðra gjalda vert að samræma slík störf í einhverju og skýra það en ég átta mig ekki alveg á því hvað hér er verið að leggja til.

[14:00]

Hæstv. ráðherra gat þess að þetta ætti að vera hluti af verkefnum Landskrár fasteigna en ekki mun Landskrá fasteigna ætla að finna upp hjólið og senda mælingamenn á alla staði á landinu til að mæla upp.

Herra forseti. Ég ítreka að mér finnst þessi staða og tilurð þessarar stéttar vera óljós. Ég ber fulla virðingu fyrir því verkefni sem þarna er ætlunin að vinna og þarna eigi að vera afrakstur af því starfi en vildi fá skýrar fram hvað er á ferðinni varðandi þessa mælingamenn.

Herra forseti. Ég fagna því að með frv. er verið að kveða enn skýrar á um verkefni Landmælinga Íslands og fá þeirri stofnun aukin skilgreind verkefni þó svo að gæta þurfi að skörun. Ég nefni t.d. örnefnaskráningu, sem er líka á lagalegri forsjá ýmissa annarra aðila, en þarf sjálfsagt samræmingar við (ÖS: Og samstarf.) og samstarf. Já, hv. þm. Össur Skarphéðinsson er alveg með þetta á hreinu. Þarna þarf að gæta þess að þetta allt vinni saman.

Herra forseti. Það er margt gott á ferðinni í þessu frv.