Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:01:36 (620)

2000-10-17 14:01:36# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel að margt ágætt sé í þessu frv. og gott að afmarka betur starfsumhverfi stofnunarinnar. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að þó ekki sé gert ráð fyrir því í þessu frv. og er ekki í lögum um þessa stofnun, að þar eigi að vera stjórn, er ég almennt þeirrar skoðunar að opinberar stofnanir eigi að hafa stjórn. Ég tel að það eigi ekki að vera eins manns forusta fyrir þeim og að heppilegt sé upp á framtíðarskipulag stofnana að fleiri séu valdir með það í huga að þeir hafi víðtæka þekkingu á starfseminni til ráðgjafar fyrir þá sem stjórna. Ég tel því að almennt eigi að hafa það í huga þegar verið er að skipa stofnun eins og þessari forustu að annars vegar sé forstjóri, sem ber fulla ábyrgð á rekstrinum, en hann hafi sér til ráðuneytis fólk sem getur svo sem verið hluti af starfsfólki stofnunarinnar en er til ráðuneytis við stefnumörkun og stjórn þessara stofnana.

Mér finnst ástæða til að nefna þetta vegna þess að það hefur verið stefna undanfarinna ára að leggja niður stjórnir stofnana og við taki forstjórar sem bera alla ábyrgð á stofnununum og eru nánast einræðisherrar á því sviði sem þeir hafa þar tekið að sér að stjórna.

Ég vil vegna þess sem hv. síðasti ræðumaður sagði um mælingamenn og vottun beina því þá til ráðherra að spyrja um það. Er ekki átt við þá sömu menn sem eru núna með réttindi sem hafa verið gefin út til manna? Það hafa verið gefin út skírteini og réttindi til manna til að gera eignaskiptasamninga og mæla út lóðir og lönd í tengslum við þá og þarna er verið að tala um menntunarkröfur og eftirlit með útgáfu á slíkum réttindum sem þar eru á ferðinni en þau eru til staðar núna og hafa verið um skeið að tilteknir aðilar hafa fengið þessi réttindi. Ég geri ráð fyrir að á bak við það sé einhver krafa um þekkingu sem hefur verið lögð þar til grundvallar.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þetta mál nánar. Ég fæ tækifæri til þess í umhvn. en vildi eingöngu að skoðun mín á því sem varðar stjórnir stofnana kæmi fram vegna þess sem sagt var hér á undan.