Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:12:40 (626)

2000-10-17 14:12:40# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu en vegna þess að færður hefur verið í tal annar meginþáttur þessa frv., nefnilega sú breyting sem gera á á stjórnskipan hennar og niðurlagningu stjórnar og orðaskipti sem átt hafa sér stað í því samhengi, þá get ég ekki orða bundist.

Herra forseti. Ég er algerlega andvígur þeirri stefnumörkun sem hér er lögð og haldið er áfram með. Það er ákaflega létt í vasa hjá mér þó að hæstv. ráðherra beri því við að þetta sé í stíl við annað hjá hinu háa ráðuneyti. Af því að menn hafi gert það áður að leggja niður stjórnir, þá sé allt í lagi að gera það áfram. Ég held að við séum að mörgu leyti að fara í þveröfuga átt þegar kemur að lýðræðislegri uppbyggingu Stjórnarráðsins. Ég heyrði orðaskipti hv. þm. í þá veru að verið væri að undirstrika ábyrgð forstjóra. Hún hefur ævinlega verið skýr og augljós þó stjórn stofnunar væri til staðar. Engar efasemdir eða grá svæði hafa verið hvað varðar ábyrgð forstjóra ríkisstofnana, hvort heldur stjórn er yfir honum eður ei. Það er alger útúrsnúningur og hefur ekkert með málið að gera. Hér er fyrst og síðast verið að auka vald ráðuneytisins á viðkomandi stofnun og setja viðkomandi forstjóra og viðkomandi stofnun undir beina stjórn ráðuneytisins og embættismanna þess. Það er kjarni málsins og menn verða að svara því: Er það þannig sem menn vilja hafa stjórnsýsluna? Ég hef miklar efasemdir um að það sé mjög heppilegt. Tökum eftir því að í hinni tilvitnuðu frumvarpsgrein, 2. gr., er stærsta breytingin sú að engin stjórn hefur lengur tillögurétt til ráðherra um það hver skuli skipa í forstjórastöðu í viðkomandi stofnunum, í þessu tilfelli Landmælinga, heldur hefur ráðherrann sjálfdæmi um það og þarf enga milligöngu stjórnar í þeim efnum. Það held ég að sé líka skref aftur á bak.

[14:15]

Þetta helgast líka af því sem gerst hefur í stórauknum mæli á yfirstandandi kjörtímabili og ekki síður hinu síðasta undir stjórn þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar, þ.e. að auka mjög framkvæmdarvaldið á kostnað þingræðisins. Í hverju málinu á fætur öðru og í hverri stofnuninni á fætur annarri hafa stjórnir verið lagðar niður sem Alþingi hafði fram að því kosið og verið færðar beint undir ráðherrann. Í öðrum tilfellum hefur verið gengið enn lengra og stofnanirnar hreinlega slegnar af. Ég spyr: Hvað næst? Ætlar Alþingi að láta bjóða sér það trekk í trekk og í síauknum mæli að klippt sé algjörlega á eftirlitshlutverk þess, sem er m.a. fólgið í því að kjósa stjórnarmenn í sumum tilfellum og þar með tengsl inn í framkvæmdarvaldið í formi eftirlits, og að einu samskiptin sem Alþingi og alþingismenn geta út af fyrir sig haft við stórar og miklar undirstofnanir framkvæmdarvaldsins séu í gegnum ráðherra? Ég vil það ekki. Því segi ég: Hvað næst? Er þá ekki ósköp eðlilegt að hér komi flokkssystir hæstv. umhvrh., heilbrigðisráðherra, og leggi til að leggja niður stjórnir heilsugæslustöðva, að það verði bara ráðherrann sjálfur sem sjái um beina stjórnun þeirra og ráðningu forstjóra?

Af því að ég veit að í ágætu ráðuneyti, umhvrn., er að finna menn sem eru mjög glöggir í heilbrigðismálum líka, þá gæti þetta smitast upp í heilbrrn. Vilja menn það? Nei, ég held ekki. Vilja menn hafa sjúkrastofnanir með þeim hætti að menn leggi niður stjórnir þeirra? Nei, tæplega. Hvaða önnur lögmál út af fyrir sig gilda þar en hjá Landmælingum Íslands eða Hollustuvernd ríkisins? Er ekki hægt að nota nákvæmlega sömu röksemdir og hæstv. ráðherra gerði áðan, að það glöggvi og skýri betur ábyrgð og stöðu forstjóra eða yfirmanns viðkomandi stofnunar að hann hafi enga stjórn yfir sér, heldur þurfi bara að lúta ráðherra og taka við skipunum þaðan? Ég held að við séum hér á mjög hættulegri braut og þurfum aðeins að staldra við í þessum efnum.

Ég vek athygli á því að þetta mál hefur auðvitað víðfeðmara samhengi eins og ég gat um áðan því að það er markviss stefna ríkisstjórnarinnar að styrkja framkvæmdarvaldið, ráðherravaldið og ráðuneytisvaldið og ganga þar með á svig við lýðræðið. Þó að það kunni ekki að vera neitt sérstaklega vinsælt eða til vinsælda fallið að halda stjórnum, nefndum og ráðum til haga og við þekkjum það í almennri fjölmiðlaumræðu að það þykir yfirleitt ekki mjög vinsælt að vera að fjölga þeim, þá er það nú einu sinni stór og snar þáttur í okkar lýðræðislegu uppbyggingu í íslensku stjórnkerfi.

Ég þekki það til að mynda úr sveitarstjórnargeiranum að ef þessi lína hæstv. ráðherra, sem kemur reyndar líka úr sveitarstjórnargeiranum, ætti að ganga eftir sér maður það fyrir að bæjarstjóri í miðlungsstóru sveitarfélagi, eins og í hennar heimabæ, hefði náttúrlega ekkert með stjórnir, nefndir eða ráð að gera yfir einstökum stofnunum eða einstökum málaflokkum, það væri þá langheppilegast að hann sæi bara um þetta. Það er þessi lína og hin meðvitaða og kannski ómeðvitaða stefnumörkun sem ég dreg mjög í efa. Þetta er kannski lítið mál í sjálfu sér og ræður engum úrslitum hvað varðar stjórnskipan í heild og breidd. En þetta er þó þáttur í stefnumörkun eins og hæstv. ráðherra gat um og er í réttri línu við það sem áður hefur verið gert í þessu ráðuneyti og í öðrum ráðuneytum sömuleiðis, og ég bið hv. þm. að hafa gát og gaumgæfa það mjög í hvaða átt við erum að stefna í þessu sambandi.

Stundum eru haldnar hér tilfinningaþrungnar ræður um mikilvægi þess að efla lýðræði í landinu og efla þá stofnun sem við hér erum kjörin til. Á sama tíma eru hv. þingmenn býsna lausbeislaðir í því sambandi að skáka þeim áhrifum og völdum frá sér til framkvæmdarvaldsins í smáu og stóru. Það getur vel verið að þetta sé ákaflega smátt í sniðum og er það vafalaust, en þetta er þó enn einn þátturinn í þeirri þróun sem því miður hefur átt sér stað. En nóg um þetta.

Mér þykir óhjákvæmilegt annað en að ráðherra fari í síðari ræðu sinni, sem ég vænti að hún haldi, aðeins örfáum orðum um þá stofnun sem hér er verið að gera tillögur um. Þá á ég við að okkur hafa birst fjölmiðlafréttir annað slagið í kjölfar flutnings stofnunarinnar upp á Akranes um að þar gangi mál með mismunandi hætti, mismunandi vel. Ég var flutningsmaður þess á sínum tíma að sú stofnun yrði flutt á Skagann úr Reykjavík og hef ekki breytt þeirri skoðun minni. Mér þætti hins vegar vænt um að ráðherrann verði nokkrum mínútum í að fara almennt yfir stöðu þeirrar stofnunar og reynsluna af þeim tilflutningi nú þegar um hefur hægst, og hvort menn séu ekki yfirleitt kátir og glaðir og afskaplega hamingjusamir með það að hafa farið í þennan tilflutning eða hvort einhver sérstök vandamál umfram byrjunarörðugleika sem öllum eru kunnir hafi birst á síðari tímum þegar menn geta horft til nokkurra missira reynslu. Mér þykir það mikilvægt þegar við erum að ræða um þá stofnun. Hún er mjög mikilvæg og þessi tilflutningur, jafnumdeildur og hann var skulum við segja og mikið japl, jaml og fuður í kringum hann af ýmsum ástæðum, segir okkur auðvitað dálítið um það hvort tilflutningur ríkisstofnana úr þéttbýli í dreifbýli sé skynsamlegur, hvort reynslan af Landmælingum Íslands, þessari litlu stofnun, hafi sýnt okkur það eða hið gagnstæða.