Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:22:28 (627)

2000-10-17 14:22:28# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skrýtin ræða. Í fyrsta lagi er í allri stjórnun mjög mikilvægt að skipuritið sé rétt þannig að hver og einn einasti viti hvar ábyrgð hans liggur og hverju hann ræður. Ef stjórn stofnunar er kosin af Alþingi og forstjórinn af ráðherra, þá telur stjórnin náttúrlega eins og liggur í orðinu að hún eigi að stjórna. Forstjórinn sem fulltrúi ráðherrans telur líka að hann eigi að stjórna og svo stjórna báðir og hvorugur ber ábyrgð. Ekki gagnvart Alþingi vegna þess að hvernig gæti Alþingi látið ráðherra bera ábyrgð á því sem stjórn skipuð af Alþingi hefur ákveðið? Um leið og stjórnin er kosin af Alþingi ber ráðherra ekki lengur ábyrgð á þessum hluta framkvæmdarvaldsins, þ.e. þessari framkvæmd og þannig er veikleiki í skipuritinu og ábyrgðin er horfin. Ábyrgðin sem ráðherra ber gagnvart Alþingi er horfin vegna þess að Alþingi ber ábyrgð á stjórn sem það skipaði sjálft. Þetta er mikill veikleiki og þetta er það sem hefur kostað íslenskt efnahagslíf fleiri hundruð milljónir, að það ber enginn ábyrgð.

Við stefnum að því, herra forseti, og ég vona að hv. þm. sé sammála því að skerpa á þrískiptingu valdsins, skilja að framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Það er einn liður í því að Alþingi sé ekki að kjósa stjórnir heldur skipi ráðherrann sína stjórn og beri fulla og óskoraða ábyrgð á því sem slík stjórn gerir.