Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:42:49 (636)

2000-10-17 14:42:49# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér bara til að taka undir þau orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að fleiri stjórnir fyrirtækja og verkefna á vegum ríkisins mættu vera kosnar af Alþingi. Ég tek undir gagnrýni hv. þm. á ríkisstjórnina og þá sem hafa á síðustu árum starfað við stjórn landsmála fyrir það að gera að hlutafélögum fyrirtæki sem áður lutu stjórnum kosnum af Alþingi. Ég tek alveg hjartanlega undir með honum að þar er verið að veikja lýðræðið.

Ráðherra fer í auknum mæli með stjórn stofnana sem hefðu átt að heyra með sterkari hætti undir Alþingi beint. Ég nefni bankana, ég nefni Landssímann og Byggðastofnun. Það hefði verið eðlilegt að Alþingi kysi þeim stjórn en ekki að ráðherra skipaði hana því það veikir lýðræðið. Ég tek því undir þessa gagnrýni hans á það.

Hvað varðar aftur á móti stofnanir sem heyra lagalega undir ráðherra sem A-hluta stofnanir og þar af leiðandi þannig beint undir Alþingi, þá er mjög mikilvægt einmitt að þar sé ábyrgðarhlutinn líka skýr.

Ég ítreka, herra forseti, að ég tek undir gagnrýni hv. þm. á það hvernig verið er að breyta stjórnum fyrirtækja, hlutafélagavæða þau. Alþingi á því þrengri og erfiðari leið að meðferð mála og ákvarðanatöku.