Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:44:50 (637)

2000-10-17 14:44:50# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Þetta hafa verið athyglisverðar umræður. Vegna þeirra orða sem hér féllu síðast frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þá sagði viðkomandi þingmaður við síðustu umræðu um málið varðandi Byggðastofnun að eðlilegra hefði verið að hafa þar einungis framkvæmdastjóra því að stofnunin heyri hvort eð er beint undir ráðherrann sem slík og stjórnin því marklítil. Fyrir ári síðan var þingmaðurinn því þess (JB: Já, þetta stendur óbreytt.) fylgjandi að hafa ekki stjórn yfir Byggðastofnun eins og ég skil ... (JB: Ekki eins og ...) Nú á að bæta sem sagt aðeins við. En þetta stendur mjög greinilega í fyrri ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Ég ætla að vitna í hana. Hún er svona, með leyfi virðulegs forseta:

[14:45]

,,Ég hefði m.a. viljað benda hæstv. umhvrh. á að hún hefði átt að koma þessum skoðunum sínum á framfæri, t.d. þegar verið var að endurgera Byggðastofnun og færa hana undir iðnrn. með skipan stjórnar sem á sér vart heldur neina stjórnsýsluréttarlega stöðu. Þar hefði verið eðlilegra að hafa bara framkvæmdastjóra því að stofnunin heyrir hvort eð er beint undir ráðherrann sem slík og stjórnin því marklítil.``

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti. En þetta hafa verið fróðlegar umræður um landmælingar og kortagerð. Umræðan hefur reyndar aðallega snúist um stjórn eða ekki stjórn yfir ríkisstofnunum almennt. Það er svo sem eðlilegt að menn hafi miklar skoðanir á því en það hefur verið mjög sérkennilegt að fylgjast með umræðunni þar sem hinir pólitísku litir hafa tekist á að sumu leyti en að öðru leyti verið mjög sammála. Má draga það fram að hv. þm. Pétur Blöndal og hv. þm. Jón Bjarnason eru mjög sammála þessu máli. Má segja að þeir séu hvor á sínum endanum á hinu pólitíska litrófi. (Gripið fram í.) Já, ég tel að það sé nokkuð víst þannig að þetta er allsérstakt.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði um starf mælingamannanna og réttindi þeirra. Í 4. gr. kemur fram að mælingamenn eiga að fá vottun og eiga að sjá um að mæla eignarmörk landa og lóða. Mér heyrðist hv. þm. tala eitthvað um eignaskiptasamninga en það er undir öðrum lögum, fjöleignarhúsalögunum, þannig að hér er einungis verið að tala um mælingamenn sem eiga að mæla eignarmörk landa og lóða. Verið er að setja lagagrein til þess að geta sett reglugerð sem á að kveða á um menntun, réttindi og skyldur mælingamanna og um eftirlit Landmælinga Íslands með vottun þeirra og störfum. Þá þurfa menn að fá vottun frá Landmælingum Íslands til að geta fengist við þessar mælingar. Ég á ekki von á því að þetta muni valda neinum vandkvæðum.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir ræddi líka um miðlun upplýsinga og það er rétt sem hún dró fram að verið er að hnykkja á hlut Landmælinga Íslands gagnvart miðlun upplýsinga. Viðkomandi hv. þingmaður spurði einnig um hvort Landmælingar Íslands hefðu niðurgreitt þjónustu í einhverjum tilvikum. Mér er ekki kunnugt um það á þessari stundu hvort svo sé en a.m.k. er búið að aðskilja algerlega núna samkeppnisreksturinn frá öðrum rekstri þannig að það á ekki að geta komið til. Varðandi fyrirspurn sem kom um sértekjurnar miðað við framlög ríkisins til stofnunarinnar að öðru leyti sýnist mér í fljótu bragði á fjárlögunum að sértekjurnar séu um 1/4 hluti tekna Landmælinga Íslands.

Aðalumræðan hefur verið um stjórnir og það er alveg ljóst að á vegum umhvrn. hefur verið unnið markvisst að því að leggja niður stjórnir eins og hér hefur komið fram. Stjórnin hefur verið lögð niður hjá Hollustuvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun. Við erum ekki með neina stjórn yfir Náttúruvernd ríkisins og ekki er stjórn yfir Veðurstofunni. Ég býst við því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, sem hefur talað um að það sé ógn við þingræðið, séð í víðu samhengi, ég get nú alls ekki tekið undir það --- ég heyrði að hv. þm. Stefanía Óskarsdóttir fékk ekki heldur alveg svör við því --- en ég býst þá við því að hv. þm. flytji frumvörp um að settar verði stjórnir yfir þessar stofnanir fyrst það liggur svo þungt á viðkomandi þingmanni varðandi þessar stjórnir að það mundi styrkja þingræðið að hafa þær.

Á síðasta þingi lögðum við niður stjórn Brunamálastofnunar Íslands. (GÁS: Var ég á móti því?) Viðkomandi þingmaður var fjarstaddur. (GÁS: Umræðu um málið?) Ég get rifjað það upp, ég man að viðkomandi þingmaður tók þátt í umræðunni en ég lét fletta því sérstaklega upp hvort viðkomandi þingmaður tók þátt í atkvæðagreiðslu um það mál en svo var ekki. Viðkomandi þingmaður var með leyfi eða fjarstaddur en enginn greiddi atkvæði á móti þessu. Allir studdu það frv. enda var það mjög framsýnt frv. eins og ég man að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kom aðallega inn á í umfjöllun sinni þá. Þá settum við hins vegar upp ráðgefandi ráð, brunamálaráð, en hér heyrðist mér umræðan vera svolítið ruglingsleg þar sem talað var um ráðgefandi stjórnir.

Ég tek undir þau orð sem féllu hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að stjórnir eru til að stjórna en þær hafa aðra stöðu en ráðgefandi ráð og okkur þótti mjög eðlilegt að leggja til við Alþingi að brunamálaráð yrði starfandi gagnvart Brunamálastofnun sem ráðgefandi ráð. Þar sitja í ýmsir hagsmunaaðilar sem hafa ekki sömu völd og stjórn. Maður hlýtur að spyrja sig þegar stjórn er yfir stofnun og auðvitað skiptir máli hver stofnunin er, ég vil taka undir það sem hér hefur verið dregið fram og ég ræði einungis núna um stofnanir sem heyra undir umhvrn., þá geta menn lent í því að óskýrt sé hver á að stjórna, og hafa lent í því, að stjórnir og forstjórar eru ósammála, forstöðumenn og stjórnir eru ósammála og koma til ráðherra nánast til þess að klaga hvor annan. Ég býst við því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson þekki það hugsanlega frá fyrri tíð í sínum stjórnmálastörfum að slík staða hafi komið upp. Sumir forstjórar hafa lent í því að skýla sér á bak við stjórnir þannig að mjög óskýr vinnubrögð hafa komið með þessari skipan mála. Ég tel mjög eðlilegt að leggja niður stjórn Landmælinga Íslands og vænti þess að hið háa Alþingi samþykki það. Ég sé enga þörf á þessari stjórn og ég mæli ekki með því að sett verði stjórn yfir Hollustuvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruvernd ríkisins, Veðurstofuna né aðrar stofnanir umhvrn. Það er ágætt að taka það fram að þetta er síðasta stjórnin hjá umhvrn. (Gripið fram í.) Síðasta vígið sem nú fellur og tel ég það vera til bóta.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kom aðeins inn á stöðu Landmælinga sem stofnunar almennt og mig langar aðeins að fjalla um það hér að lokum. Það var dregið fram að flutningarnir voru sársaukafullir og það er rétt. Þetta voru sársaukafullir flutningar og það er erfitt þegar stofnun er flutt frá þeim stað þar sem hún var og út á land eins og þetta var á sínum tíma í dreifbýli -- ég tel reyndar núna að það sé svona innan gæsalappa að menn geti sagt að Akranes sé dreifbýli vegna tilkomu Hvalfjarðarganganna. En þetta var sársaukafullt og það kostaði líka ákveðna fjármuni að flytja stofnunina en það hefur gengið mjög vel. Að vísu sögðu starfsmenn upp í upphafi en það hefur gengið mjög vel hjá stofnuninni á Akranesi. Hún hefur verið að stóreflast, það hefur tekist afar vel að manna stofnunina. Búið er að ráða sérfræðinga, m.a. tvo landmælingaverkfræðinga að mér skilst. Það er mjög menntað starfsfólk á stofnuninni og hefur ekki verið vandamál að ráða það. Það er metnaðarfullt starf hjá stofnuninni og góður andi og aukin verkefni þannig að það hefur gengið vonum framar með þennan flutning.

Hér var líka dregið fram að stofnunin hefur verið nokkuð til umræðu í fjölmiðlum og það er rétt, og með neikvæðum hætti því miður. Í fyrsta lagi hefur verið talað um kostnaðinn við flutninginn og það er rétt að það var talsverður kostnaður vegna flutningsins en síðan hefur það verið dregið fram að gagnasafn hafi horfið af stofnuninni að því hefði bara verið hent, hafi týnst. Það er alger firra. Það hvarf ekki og týndist ekki, heldur var ákveðið af hálfu stofnunarinnar í samráði við Ríkisendurskoðun að endurnýta gömul ónýt kort sem voru í miklu magni á lager. Ákveðið var að endurnýta þau en allt gagnasafnið er til, bæði hjá Landmælingum og á Landsbókasafninu. Það er skylda að geyma gögn þar. Í heildina má segja að stofnunin hafi eflst upp á síðkastið og flutningurinn upp á Akranes gengið vonum framar.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og tel eðlilegt að menn hafi rætt nokkuð ítarlega um stöðu stjórna yfir ríkisstofnunum. Það er hægt að draga það hér fram af því að menn hafa það á tilfinningunni að verið sé að leggja niður stjórnir í stórum stíl, að það er hægt að benda á stofnanir sem hafa fengið stjórn yfir sig tiltölulega nýlega eins og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Ef ég man rétt var sett stjórn yfir þá stofnun á síðasta kjörtímabili. Það var ekki stjórn þar áður, ég man ekki hvort það var ráðgefandi ráð eða eitthvað svoleiðis en a.m.k. var sett stjórn, ef ég man rétt, yfir þá stofnun á síðasta kjörtímabili.