Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 15:01:45 (640)

2000-10-17 15:01:45# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi Brunamálastofnun þá hefur hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson lýst því að hann hafði efasemdir um að leggja niður stjórnina á sínum tíma. Það er eflaust hárrétt. En ég vil draga það fram að þá er hv. þm. algjörlega einn um þá skoðun í stjórnarandstöðunni vegna þess að enginn greiddi atkvæði í þessum sal á móti því.

Varðandi hitt að það sé tengt lýðræðinu að leggja stjórn Landmælinga Íslands niður þá get ég ekki tekið undir það. Þessi stjórn er þriggja manna og skipuð af ráðherra. Það er ekki einu sinni tilnefnt í hana. Hún er algjörlega skipuð af ráðherra. Ég tel því ekki að hún skipti máli fyrir lýðræðið í landinu. (GÁS: Ég sagði það líka.) Hv. þm. var kannski ekki að segja að hún skipti sköpum en hefur samt lagt út af því að það að við séum að leggja niður stjórn Landmælinga Íslands geti ógnað lýðræðinu og að þingræðinu getið staðið ógn af því. Ég sé ekkert samhengi þar á milli.

Ég vil hins vegar taka fram að það er auðvitað ekki hægt að segja að við eigum að keyra eftir algjörlega einni línu í stjórnkerfinu með þetta. Sums staðar er eðlilegt að hafa stjórnir. Sums staðar er eðlilegt að hafa ráðgefandi ráð. Sums staðar er eðlilegt að hafa hvorugt. En a.m.k. hjá umhvrn., miðað við það hvernig okkar stofnanir eru saman settar, þá teljum við ekki eðlilegt að hafa stjórn yfir Landmælingum Íslands og leggjum þess vegna til þessar breytingar.