Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 15:05:50 (643)

2000-10-17 15:05:50# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur gengið mjög vel hjá þessari stofnun á Akranesi. Ég var staddur á sýningu sem var opnuð í haust á Akranesi sem Landmælingar tóku þátt í og hæstv. umhvrh. var þar líka. Þar þakkaði forstjóri stofnunarinnar í ræðu sinni mjög bæjaryfirvöldum á Akranesi og bæjarstjóranum fyrir þátttöku í því að koma þessari stofnun fyrir á Akranesi. Ég tel að það hafi skilað sér mjög vel að bæjarstjórinn var þar í stjórn á meðan þessir hlutir voru að ganga yfir.

Ég tek hins vegar undir það sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan að auðvitað eru þessi mál ekki eins í hverju tilfelli. Ég tel að í langflestum tilfellum þar sem um er að ræða flókna starfsemi og margbrotna þá eigi að vera stjórn á bak við, annaðhvort ráðgefandi stjórn eða stjórn sem ræður sér sjálf forstjóra og ber ábyrgð. Það eru aðferðirnar. Mér finnst t.d. undarlegt að hæstv. ráðherra nefndi það sem röksemd gegn því að þessi þróun væri öll í eina átt að Áfengisverslun ríkisins hefði fengið stjórn. Ég hefði talið, þó ég hafi síður en svo á móti því að hún hafi stjórn og tel að stjórnir eigi almennt að vera í fyrirtækjum, að þá sé þar er á ferðinni tiltölulega einfaldur rekstur. Og úr því að menn telja ástæðu til þess að hafa stjórn þar þá væri nú hægt að halda því fram að hún ætti að vera býsna víða.

Það er sem sagt ekki sama um hvaða stofnun er að ræða og mér finnst að það eigi að taka afstöðu í hverju tilfelli. En það er alveg auðséð hvaða stefna ræður ríkjum og hvernig menn hafa keyrt hana á undanförnum árum. Þar eiga menn að doka við og fara yfir þau mál að nýju. Það var full ástæða til þess hafa tekið þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag.