Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 15:57:20 (653)

2000-10-17 15:57:20# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er auðvitað alveg sammála hv. þm. að hér erum við að ræða um líklega erfiðustu mál sem hægt er að hugsa sér í dómskerfinu, þar sem við erum að ræða um slík afbrot gagnvart börnum okkar. En í sambandi við dómarana þá var það nú þannig að þeir fengu sérstaka sérfræðinga í lið með sér í þessum yfirheyrslum, það voru sérfræðingar m.a. frá Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, sérfræðingar sem voru vanir í yfirheyrslum í barnaverndarmálum. Ég þekki til þessara sérfræðinga þar sem ég var um árabil formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur, þekki vel til þessa málaflokks og ég held að það hafi almennt gengið vel fyrir sig.

En þess utan eins og ég upplýsti áðan er nú búið að skipa sérstakt teymi dómara sem sérhæfir sig í þessum málum og ég tel að það sé fagnaðarefni.