Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 15:58:30 (654)

2000-10-17 15:58:30# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins til viðbótar þessu. Dómarar eru nú mannlegir eins og annað fólk og það að fylgjast með yfirheyrslu yfir þessum börnum tekur verulega á. Og það þarf enginn að segja mér að dómari sem hefur tekið þátt í yfirheyrslu á þessum börnum komi þaðan nánast óhlutdrægur, því það er gríðarlega erfitt. Ég lít svo á að mjög erfitt sé fyrir dómara að taka hlutlægt á málum eftir yfirheyrslur af þessum toga. Við verðum líka að líta fram hjá því að rannsókn hefur það eitt markmið að upplýsa um það sem gerðist. Og sá sem sakaður er hefur einnig sinn rétt. Ég tel því að mjög erfitt sé fyrir dómara að taka hlutlægt á málum eftir að hafa tekið þátt í rannsókn eins og nú er lagt fyrir þá. Ef ég man rétt, hæstv. dómsmrh. getur þá leiðrétt mig, þá sagði héraðsdómari á Akureyri sig frá slíku máli, en Hæstiréttur hafnaði því. En ég get vel ímyndað mér að héraðsdómurum og dómurum sem koma að þessu þyki óþægilegt að taka á málum eftir að hafa tekið þar þátt í yfirheyrslu af þessum toga.