Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:05:13 (657)

2000-10-17 16:05:13# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:05]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram mikill misskilningur í málflutningi hv. þm. Ef aðrir þingmenn byggja afstöðu sína á þessum málflutningi er illt í efni. Mér fannst líka gæta þessa misskilnings hjá hæstv. dómsmrh. Af hverju var Barnahúsi komið upp? Einmitt til þess að fyrirbyggja að barn þyrfti að fara ítrekað í skýrslutökur.

Það er einu sinni svo að af þeim fjölda mála sem kærð eru fara kannski ekki nema 10--20% fyrir dóm, fara alla leið fyrir dóm. Í um 80% mála er því um ræða eina skýrslutöku sem væri þá fyrir Barnahúsið vegna þess að oft er það svo að vegna skorts á sönnunargögnum þá fara málin ekki lengra. Því er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni vegna þess að átta af hverjum tíu börnum fara bara einu sinni í skýrslutöku og þá í Barnahúsi, en málið fer ekki fyrir dóm. Samkvæmt því fyrirkomulagi sem nú er fara öll börnin í skýrslutöku í dómhúsinu en til aðalmeðferðar koma kannski ekki nema 10--20% þeirra.

Einnig ber að hafa í huga að margir dómarar efast um að hægt sé að komast hjá því að yfirheyra barnið aftur þegar málið kemur til aðalmeðferðar og búið er að yfirheyra sakborning, þá þurfi e.t.v., ef frásagnir eru mismunandi, barnið að koma aftur til yfirheyrslu við aðalmeðferðina. Því er alls ekki fyrir það tekið, jafnvel þó það sé í dómhúsi, að barnið þurfi að koma tvívegis til skýrslutöku.

Ég mun ræða þetta aftur í seinni ræðu minni á eftir en ég vona að þingmenn byggi ekki málflutning sinn á því að með því sem hér er lagt til sé stuðlað að því að börn þurfi að koma margsinnis til skýrslutöku.