Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:12:19 (661)

2000-10-17 16:12:19# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Hér hafa farið fram mjög fróðleg orðaskipti og verð ég að játa að ég er örlítið hissa á þeim. Mér finnst þetta ekki snúast um það að vera með eða á móti Barnahúsi þó að hv. þm. Hjálmari Jónssyni finnst það. Auðvitað snýst þetta um spurninguna: Hvernig við tryggjum að börn fái besta meðferð í vondum málum. Einfalt mál fyrir mér, afar einfalt.

Í fskj. með frv. sem var samþykkt á sínum tíma stendur einmitt: ,,Megintilgangur frv. er að styrkja réttarstöðu brotaþola`` --- lesist: barna. Einnig er gaman að skoða umsagnir um það frv. Þar er auðvitað alls staðar minnst á að börnunum verði sem minnst íþyngt, að þau verði fyrir sem minnstum óþægindum, komi ekki nálægt vitnunum o.s.frv., og sérstaklega eigi að taka tillit til þess ef börnin eru mjög ung.

Gott og vel. Ef praxísinn í málunum gengur ekki eftir verður að gera eitthvað. Hvað á að gera? Við höfum þrjá valkosti. Kannski er rétt að segja frá því að hv. allshn. og hv. félmn. eru báðar búnar að kynna sér Barnahús og héraðsdóm. Auðvitað er þetta ekki alveg sambærilegt. Það var gríðarlega fróðlegt, ég játa það, að fara í dómhúsið. En auðvitað hefur það yfir sér annan blæ þó að viðtalsherbergið sé afskaplega notalegt. Öll leiðin að því er vitanlega flóknari en það er reynt að gera hið besta úr því. Við megum heldur ekki horfa of mikið á þessa aðstöðu. Þetta er spurning um afstöðu en ekki aðstöðu.

Auðvitað þarf að vera góð aðstaða í dómhúsi eins og bæði hæstv. dómsmrh. og 1. flm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndu. Það er fullt af öðrum viðkvæmum málum sem þurfa sérútbúna aðstöðu. Það eru nauðgunarmál, þroskaheftir einstaklingar geta átt í hlut, áreitismál og ýmis þannig mál. Auðvitað á aðstaða í dómhúsi alltaf að vera til fyrirmyndar, það er gott mál. En það á ekki að tefla þessari aðstöðu gegn annarri í stað þess að þær bæti hvor aðra upp.

[16:15]

Þegar við vorum í heimsókn í dómhúsinu var auðvitað rætt um að það er ákveðið stílbrot að þar skuli mál rannsökuð. Það er ákveðið stílbrot að þar skuli fara fram rannsókn á jafnviðkvæmum málum. Þetta er eini málaflokkurinn þar sem rannsókn fer fram í dómhúsi og því skyldi það vera? Samt erum við með ákvæði í lögum um að við getum fært dómþing hingað og þangað. Af hverju er það ekki gert ef hagsmunum barna er best borgið þannig?

Ég stend með börnum. Ég vil vera talsmaður barna í þessum málum og að horft sé á hagsmuni þeirra númer eitt, tvö og þrjú og ekkert annað. Hvort er dómari hreyfanlegur eða ekki? Snýst þetta um að það megi ekki hreyfa dómara úr stað? Mér finnst mjög erfitt og vont þegar maður er farinn að hugsa þannig og ég vil forðast það.

Það er stílbrot að þetta skuli fara fram í dómhúsi. Dómarafélagið, ríkissaksóknari og aðrir voru gegn því þegar frv. var flutt á sínum tíma að þessu yrði breytt. Þeir vildu að áfram yrði sú teymisvinna sem var með lögreglu, barnaverndarnefndum og félagsmálayfirvöldum. Það var grunnurinn að Barnahúsi, þ.e. sú teymisvinna. Hún var auðvitað mjög fín. Eins og ég segi eru það ekki nema 10% af þessum málum sem fara fyrir dóm. Það er líka mjög alvarlegt, ef við horfum á þessar tölur, hversu mörg þessi mál eru, hvað við erum að tala um stóran hóp barna sem lenda í þessum hremmingum.

Það eru þrjár leiðir til í málinu. Ég hef skrifað margar blaðagreinar um þetta mál og ég hef alltaf sagt: Það á að semja um þetta mál börnunum til hagsbóta. Annars vegar á að gera samkomulag um að yngri börn, undir 14 ára, séu í Barnahúsi en börn eldri en 14 ára í dómhúsi. Síðan þarf að taka tillit til séraðstæðna ef þær koma upp.

Dómstólaráð sendi frá sér frétt sem var kannski í sjálfu sér ekki frétt þó það hafi átt að líta svo út. Dómstólaráð hefur samt sem áður ekkert yfir dómurum að segja og sagði í sjálfu sér ekkert annað en að dómstólaráð vildi leysa þetta mál. Það er hægt að leysa þetta með samningum. Það má kannski ekki því enginn má ráða yfir öðrum og auðvitað ræður enginn yfir dómurum.

Það var afskaplega góð grein í Degi, viðtal við Ólöfu Pétursdóttur, dómstjóra á Reykjanesi, þar sem hún nefndi þá leið að tæknin --- sem er líka möguleiki og við ræddum það í heimsókn í héraðsdómi --- byði upp á að börnin geti verið í Barnahúsinu og aðilar máls sitji í dómhúsi. Það er í sjálfu sér mjög farsæl lausn.

Númer eitt er að semja um þetta reglur, númer tvö að nýta sér tæknina og númer þrjú að breyta lögunum eins og hér hefur komið tillaga um. Við höfum þessar þrjár leiðir og allar miða þær að því að gæta fyrst og fremst hagsmuna barna.

Ef í sjónmáli væri --- ég veit að það vakir líka fyrir flutningsmönnum --- sátt í þessu máli og aðstaða barnanna væri ekki fyrir borð borin á þennan hátt, því að það eru þau sem verða bitbein í þessu máli og enginn annar, hefði þetta frv. sennilega ekki komið fram. Þurfi Alþingi að leiðrétta eitthvað þá eigum við að gera það. Mér finnst málið ekki flóknara en svo. Ef við þurfum að breyta lögunum til að þjóna hagsmunum barnanna þá verður svo að vera. Ef hægt er að leysa það á annan farsælan hátt þá verður það að vera tryggt meðan við klárum þetta frv. í nefnd.