Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:21:32 (664)

2000-10-17 16:21:32# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:21]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir það með Guðrúnu Ögmundsdóttur þingmanni Samfylkingarinnar að þessi umræða á fyrst og fremst að snúast um hagsmuni barnsins. Það eigum við að árétta aftur og aftur. Þetta mál snýst ekki um hagsmuni dómara, ekki um virðingu dómhússins, ekki um hvort togstreita sé á milli dómhúss og Barnahúss heldur um að hagsmuna barna sé gætt í hvívetna. Það er nöturlegt ef við þurfum að enda þessa umræðu með því að vona að tæknin komi til hjálpar, að þegar fólk er ófært um að beygja sig og gera það besta fyrir börnin sé gripið til nettenginga til að fara að lögum sem eflaust eru mistök.

Hér var fjallað um það áðan að eðlilegt væri að dómari færi með frumrannsókn á barni af því að annars þyrfti það að fara í fleiri rannsóknir. En hjá flutningsmanni kom fram að 80--90% mála sem dómarar yfirheyra börnin vegna núna færu ekki fyrir dóm og það er að mínu mati, sem ekki er löglærð, algjör bakhlið á dómskerfinu, að dómari fái mál upp í dómhús sem ekki verður kært í.

Þá má spyrja hvort, í þeim tilfellum sem dómari fer með frumrannsókn og á síðan eftir að yfirheyra sakborning og mismunandi upplýsingar koma fram hjá báðum aðilum, þolandanum og sakborningnum, annar dómari sem fær mál eftir ákæru láti sér nægja það sem fram kom í frumrannsókn annars dómara áður en sakborningur var yfirheyrður. Við sjáum sjálf hversu andstætt þetta er hugsuninni um dómskerfið, um löggæsluna og barnavernd.

Ég ætla líka að leyfa mér, virðulegi forseti, að nefna norsku lögin. Það kom fram í máli framsögumanns að þetta sé alls staðar með þeim hætti sem var áður en þessi blessuð lög voru sett nema í Noregi. Í umræðuþáttum í fjölmiðlum hef ég heyrt vísað til norsku laganna til að styðja það að lögunum um meðferð opinberra mála var breytt hér. En þar er grundvallaratriði að skýrslutaka er ekki fyrir dómi. Þar er notuð svokölluð ,,uten ret adferd`` sem ég ætla ekki að gera tilraun til að þýða hér þó mér sé norskan nokkuð töm. Samkvæmt því eru settar reglur um hver yfirheyri og hvar. Þar eru beinlínis settar reglur, þær reglur viðurkenndar og eftir þeim farið að barn undir 14 ára aldri fari alls ekki í dómhús. Svo einfalt er það. Þetta eru norsku lögin sem eru sennilega eina undantekningin í allri Evrópu frá því að barn sem hefur lent í kynferðisafbroti fái ekki frumyfirheyrslu eða rannsókn eins og tíðkaðist í Barnahúsinu og við höfum öll verið svo grobbin af.

Hér búum við við það að enginn, ekki hæstv. dómsmrh., ekki dómstólaráð, getur sett dómurum reglur eða sagt þeim fyrir verkum. Þess vegna er fundið eitthvert leiðbeinandi verklag. Ég minni á að félmrh. var ekki hrifinn þegar þessi niðurstaða varð.

Nei, herra forseti. Þetta mál er ekki svo einfalt sem hæstv. dómsmrh. vill vera láta og hv. þm. Hjálmar Jónsson tók undir með. Þetta mál er erfitt og slæmt. Það er slæmt vegna þess að við hér á Alþingi settum lög og vissum ekki hvað við vorum að gera. Ég fullyrði að þessi lög hafi verið sett vegna vinnubragða okkar í þinginu. Ætli megi ekki leiða að því getum að þetta mál hafi komið inn í málahrúgunni á vorönn þegar alltaf er hætta á mistökum. Hvort sem svo var eða ekki þá urðu mistök.

Það reiknuðu allir með að þetta orðalag ,,sérútbúin aðstaða`` þýddi Barnahúsið, hver einasti maður. Hvergi fóru menn að ræða það inni í þingflokkunum að nú ætti að flytja yfirheyrslur yfir smábörnum, jafnvel niður í fögurra ára, upp í dómhús. Ímyndið ykkur umræðuna á því vori ef við hefðum vitað hvað fólst í þessari lagasetningu.

Barnahúsið er að mínu viti einhver stærsta fjöðrin í hatti félmrh. Ég sagði það á sínum tíma, þegar þetta hús var opnað, að hann mætti vera stoltur af því. Jafnvel þó að hann gæti ekki hreykt sér af neinu öðru eftir veruna í félmrn. þá mætti hann vera stoltur af því að hafa komið á Barnahúsinu. Ég sagði það þá og get alveg endurtekið það hér. Þess vegna skil ég að hann hafi verið svekktur þegar ljóst var hver niðurstaðan væri, fyrir tveimur, þremur vikum, að dómararnir héldu þessu hjá sér. Hann lét þá þau orð falla að þar með væri þetta með Barnahúsið búið mál.

Barnahúsið hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Þar þykir góð starfsemi og þar eru nærgætin vinnubrögð viðhöfð, svo ég vísi í orð félmrh. Það er ekki oft sem ég vísa í hans orð. Það hefur oft komið fram í fréttum að þeir sem hafa kynnt sér starfsemina telji þetta réttu leiðina við skýrslutöku, við læknisskoðun eða rannsókn og umönnun eftir meint kynferðisafbrot.

Enn á ný vísa ég til þess sem fram kom hjá Guðrúnu Ögmundsdóttur hér áðan, að þetta snýst ekki bara um yfirheyrslu, þetta snýst um að barnið þurfi ekki að fara á fleiri en einn stað. Jafnvel þó að barnið fari í yfirheyrslu í dómhúsið þá þarf það líka að fara í læknisrannsókn. Aðstaðan í Barnahúsinu býður einnig upp á læknisrannsókn vegna þess að það er líka sértæk rannsókn. Börn hafa komið þangað alls staðar að af landinu.

Í hvert skipti sem fjallað hefur verið um Barnahúsið í fréttum var það með jákvæðum formerkjum þar til togstreita dómsmrh. og barnaverndaryfirvalda fór í gang. Þá kom það við hjartað í hverju foreldri og hverri ömmu og menn fundu til þakklætis vegna þess að yfirvöld hefðu útbúið þannig aðstöðu að leitað væri bestu úrræða fyrir barn sem lenti í þessum hörmungum.

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað fram undan var en þegar farið var að innrétta aðstöðuna í dómhúsinu var mér alveg ljóst hvað væri í uppsiglingu. Ég ræddi það strax í þinginu og kom með fyrirspurnir til ráðherrans. Ég vonaðist til að ekki væri fyrirhugað að gera slíkar grundvallarbreytingar í svo viðkvæmu máli. En það er alveg sama með hvaða formerkjum maður hefur rætt um þetta mál við dómsmrh., það er ekki nokkur vegur að fá hæstv. dómsmrh. til að ræða þetta mál frá öðrum sjónarhóli en dómara. Þannig er staðan og engin leið að ná umræðunni á annað plan.

[16:30]

Þetta snýst ekki um eitt yfirheyrsluherbergi í dómhúsinu. Þetta snýst um allt hitt sem felst í Barnahúsi. Fólk hefur verið sent til útlanda að læra sérstaka yfirheyrslu- eða samtalstækni, aðbúnaður allur er miðaður við að taka á móti barni sem er í sárum. Svo er reynt að láta líta svo út að það sé jafngott að keyra upp að dómhúsinu við Hverfisgötu og ganga þar inn í herbergi með sérstakri yfirheyrsluaðstöðu. Ég a.m.k. hugsaði þetta mál á allt öðrum nótum og skil því ekki málflutninginn.

Það hefur líka verið sagt að yfirheyrslan verði á einum stað en það er öðru nær. Barnahúsið var útbúið þannig að allt væri á einum stað. Barnið segir sögu sína á einum stað þegar það fer í Barnahúsið en ekki á mismunandi stöðum. Þetta eru mjög ólíkar aðferðir, annars vegar að flakka með barnið á milli staða, á einn til yfirheyrslu, annan til læknisskoðunar eða sérfræðiaðstoðar og hins vegar að sinna öllu á sama staðnum. Þetta eru gjörólíkar aðferðir í barnavernd og umönnun.

Ég gat þess áðan að mér fyndist ekki rétt farið með tölur þegar vísað er í málin frá 1999. Ég ætla ekki að endurtaka það en tölurnar sem ráðherrann hefur farið með eru ekki réttar vegna þess að á fyrstu mánuðum lagasetningarinnar urðu allir dómarar að fara í Barnahúsið. Um leið og þeir fengu valið fóru þeir að flytja litlu krakkana til sín.

Það kemur fram í grg. með frv. að Barnahúsið varð til í kjölfar þess að upplýst var á Alþingi um gífurlegan fjölda mála sem barnaverndarnefndir hafa fengið til meðferðar og í hve fáum þeirra var birt ákæra. Með sameiginlegu átaki var reynt að taka þannig á málum að ljóst væri og fullkannað hvort ástæða væri til ákæru í öllum tilfellum. Reynt var að forðast þær kringumstæður að hags barnsins væri ekki gætt.

Ég held að með þessu áframhaldi lendum við í sömu stöðu og varð tilefni að Barnahúsinu. Miðað við yfirlýsingar félmrh. er ekki grundvöllur fyrir Barnahúsinu ef allar yfirheyrslurnar eiga að fara í Héraðsdóm Reykjaness, í Héraðsdóm Norðurlands eystra og í dómhúsið í Reykjavík, en af þessum þremur svæðum koma langflest börn í Barnahúsið. Um leið og þessi rannsóknarviðtöl hafa verið flutt þangað má segja að búið sé að taka stóran þátt í starfsemi Barnahússins frá því.

Ég vakti athygli á því um daginn að svo virtist sem kominn væri upp grundvallarágreiningur milli félmrh. og dómsmrh. Meðan dómsmrh. hélt því fram að verklagsreglur dómstólaráðs treystu starfsemi Barnahúss var afstaða félmrh. þvert á móti sú að niðurstaðan þýddi að fljótlega mundi Barnahúsinu lokað.

Við stöndum frammi fyrir því að enginn getur sagt dómurum fyrir verkum. Ef einn dómari ákveður að fara sína leið hvað sem öllum verklagsreglum líður þá fer hann sínu fram. Við hefðum ekki horft upp á að fjögurra og sex ára börn væru færð í dómhús til yfirheyrslu nema af því að dómarar telja að samkvæmt lögum eigi þeir að haga málum svo. Þannig er það. Enda lýsti dómsmrh. því yfir og ég batt við það mjög miklar vonir að hún ætlaði að leysa þetta mál. Það héldu allir. Meðan við vissum ekki annað þá héldum við að hægt væri að búa til reglur sem segðu afdráttarlaust að börn undir einhverjum tilteknum aldri mundu fara í rannsóknarviðtöl í Barnahúsið. Þetta var hægt í Noregi og er gert þar af því þar er um að ræða ,,uten ret adferd``, en hér var þetta sett með lögum inn í meðferð opinberra mála.

Þannig blasir þetta mál við, herra forseti. Ég var að vona að þegar þetta mál kæmi til umræðu væri einhver lausn í sjónmáli af hálfu dómsmrn. Satt best að segja óraði mig ekki fyrir því að þegar við tækjum þetta mál til umræðu núna, hálfum mánuði eftir að þing kemur saman, þá fyndist ráðherranum þetta harla gott og engin ástæða til breytinga. Þrátt fyrir að ég viti að hún hefur heimsótt Barnahúsið þá spyr ég, miðað við hvernig ráðherrann flytur mál sitt, hvort hún skilji ekki hvað um er að ræða. Ef hún skilur það ekki þykir mér það mjög miður og þá skil ég líka þessi viðbrögð. En hins vegar skil ég alls ekki af hverju ráðherrann ætti ekki að skilja um hvað málið snýst.

Það hefur verið bent á að Dómarafélagið væri ekki sátt við þetta, ríkissaksóknari hefur talið að þetta þurfi að endurskoða, barnaverndaryfirvöld vilja breytingu og fagfólk gagnrýnir þetta fyrirkomulag. Hér hefur verið lesin auglýsing þar sem allir sem máli skipta lýsa því yfir að þeir vilji hafa það fyrirkomulag sem við höfum beitt okkur fyrir, allir nema dómsmrh. Mér er til efs að dómararnir vilji sjá þetta en þeir hafa fengið yfir sig lög sem segja að svona skuli það vera og sjálfsagt er það hið eina sem skiptir máli fyrir þá.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur, sem talaði af hálfu Samfylkingarinnar ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, sem flutti framsögu í þessu máli, þá liggur við að við séum þar stödd að okkar eina von sé hin skynsama afstaða Héraðsdóms Reykjaness þar sem dómstjórinn lýkur lofsorði á Barnahúsið og segir að rétturinn hafi notað það allan tímann, en nú er verið að innrétta samkvæmt lögum aðstöðu þar líka eins og á Norðurlandi eystra. Eini kosturinn sem hún sér er að e.t.v. sé hægt að skoða hvort ekki megi útbúa einhver tæki í Barnahúsinu þannig að dómararnir geti setið annars staðar og yfirheyrt í gegnum þetta tæki en börnin séu í hinu verndaða umhverfi.

Þá spyr maður sig, ef það yrði niðurstaðan: Var þá ekki óþarfi og hefði peningunum ekki verið betur varið öðruvísi til barnaverndarmála en með að innrétta þessa aðstöðu?

Ég enda ræðu mína, herra forseti, með því að minna á að í Noregi fara öll börn yngri en 14 ára í rannsóknarviðtöl ,,utan réttar`` í vernduðu umhverfi, samkvæmt norskum lögum sem voru þó þau einu sem ekki gerðu ráð fyrir sama fyrirkomulagi og var hér á landi, áður en þau lög voru sett á Alþingi sem hér er reynt að breyta.