Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:40:04 (666)

2000-10-17 16:40:04# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vantreysti ekki dómurum almennt í þessu landi. Ég ber meira að segja mjög mikla virðingu fyrir dómurum, jafnvel meiri virðingu fyrir dómurum en ýmsum öðrum stéttum. Það er e.t.v. eitthvað úr uppeldinu. Þeir eru fjarlægir, hafa mikið vald og eiga að greina milli þess sem er rétt og rangt í þessu samfélagi. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim.

Ég tel bara að dómarar hafi ekki þannig bakgrunn og menntun sem gagnast best í að vera með lítið, skaddað barn í höndunum og eiga að ræða við það um jafnviðkvæma hluti og kynferðislegt afbrot.

Í öðru lagi. Það eru orð félmrh. að starfsemin í Barnahúsi verði svo takmörkuð ef frumrannsóknir verði felldar niður í starfsemi þess, þar sem þær hafa verið stór þáttur í starfsemi Barnahúss, að það verði ekki grundvöllur fyrir því. Ég held að margir aðrir séu sömu skoðunar.

Þetta er greinilega hrikalega erfitt mál. Kynferðisbrotamálin eru meira en erfið, þau eru óhugnanleg. En þetta mál sem við erum að ræða, hvar eigi að vinna með málið, það er erfitt.

Ég sagði ekkert um að hæstv. dómsmrh. skildi ekki málið. Ég spurði hvort það gæti verið að dómsmrh. skildi ekki málið. Sjálf skil ég ekki dómsmrh. En það er alveg rétt hjá ráðherranum að ég á ekki sæti í allshn. og ég get vel skilið að ráðherrann fagni því.