Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:42:05 (667)

2000-10-17 16:42:05# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er einn þeirra þingmanna sem hafa átt þess kost að heimsækja Barnahús og kynna mér starfsemi þess. Án þess ég sé sérfræðingur um þau mál þá virkaði sú heimsókn og allt annað sem ég hef kynnt mér í sambandi við starfsemi þess húss þannig á mig að þar sé unnið að málunum þannig að til fyrirmyndar sé. Við ættum að geta verið stolt af því, svo langt sem það nær a.m.k., að þar er þó reynt að takast á við þau hörmulegu mál sem þar eru til umfjöllunar á þann hátt að ekkert sé til sparað við að gera öllum málsaðilum, þolendunum fyrst og fremst, það sem auðveldast að komast í gegnum þau ósköp sem þessu eru samfara, þegar grafist er fyrir um atburði af þessu tagi, teknar skýrslur o.s.frv. og í hlut eiga börn eða unglingar sem hafa sætt þessu óhuggulega ofbeldi.

Ég er, svo það liggi ljóst fyrir, mikill stuðningsmaður þess að reynt verði að hlúa að starfsemi Barnahússins. Ég held að það sé alveg ljóst, herra forseti, að það væri dapurlegt ef það dagaði uppi í einhverjum sviptingum í kringum fyrirkomulag málsmeðferðar eins og hér á í hlut í lögunum um meðferð opinberra mála. Þar væru menn af einhverri stífni, að mínu mati, að festa sig í lagabókstaf sem ekki á að ráða ferðinni. Lögin eiga ekki að lifa sjálfum sér heldur því viðfangsefni sem þau eru sett til þess að leysa úr eða fjalla um.

Í öðru lagi sýnist mér, herra forseti, að núverandi ástand sé alveg fráleitt. Ég verð að segja að hafi ég haft efasemdir um að þessi mál væru í nógu góðu horfi þá hef ég nú sannfærst um það eftir þessa umræðu hér. Ég botna ekkert í henni, að það skuli þurfa að skiptast á skoðunum í þeim tón sem hér hefur verið gert.

Ég held að það sé hið mesta ólán ef, þrátt fyrir tilvist Barnahússins og einróma vitnisburð liggur mér við að segja næstum því allra málsaðila um hversu gott það sé, ekki er hægt er að nýta sér kosti Barnahúss við að leysa þar úr öllum málsatvikunum á einum og sama staðnum, í sérhæfðu umhverfi og í höndum sérhæfðra aðila. Á sama tíma er byggð upp aðstaða í öllum héraðsdómum landsins og starfsemin er þrátt fyrir þetta að flytjast þangað. Þá eru málin greinilega ekki á góðu spori.

[16:45]

Herra forseti. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að taka endanlega afstöðu til þess hvort eina lausnin er fólgin í samþykkt frv. en mér finnst eiga að skoða það eins og annað hvort það sé þá eina leiðin að snúa til baka.

Varðandi það sem kom fram, að með því væri verið að hlutast til um hlutverk dómstólanna, þá er ég ósammála því.

Það mun hafa verið hv. þm. Hjálmar Jónsson sem taldi það freklega íhlutun í hið óháða dómsvald ef Alþingi leyfði sér að breyta lögunum. Ég hef aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Alþingi setti þessi lög og Alþingi hlýtur að geta breytt þeim líka. Það vill svo til að Alþingi setur líka lögin sem eru grundvöllur dómstólanna til að dæma eftir þannig að þetta er einhver misskilningur. Nú verður hv. þm. að lesa sér betur til áður en hann heldur því fram við okkur að Alþingi megi ekki breyta lögum sem það hefur sjálft sett þó svo að þau varði málsmeðferð og dómstólar komi þar við sögu. Dómstólar setja ekki lögin sem þeir dæma síðan eftir, það gerir Alþingi. Hins vegar dæma dómstólarnir eftir þeim eins og þau eru á hverjum tíma og eru fullkomlega sjálfstæðir og óháðir í því. Við segjum þeim ekki fyrir verkum en þeir heldur ekki okkur um það hvernig við viljum ganga frá löggjöf í þessum efnum.

Eins og ég segi, herra forseti, bakka ég ekki með það að ég teldi það mikla afturför ef Barnahúsið væri að daga uppi í þessum sviptingum. En á því virðist vera borðleggjandi hætta. Ég held við hljótum að taka mark á forsvarsmönnum þess og þar með meira að segja hæstv. félmrh. sem hefur látið ummæli falla í þá átt.

Nú er ég síður en svo að sakast við þá forsvarsmenn dómara eða forsvarsmenn dómstigsins sem telja rétt og skylt samkvæmt lögunum að útbúa þessa afstöðu í dómhúsunum og mér sýnist alveg ljóst að að óbreyttum lögum, að óbreyttri framkvæmd, stefni þetta í tvær áttir. Það held ég að væri ekki gott.

Herra forseti. Einhver stífni hlýtur að vera komin í þetta mál úr því ekki er hægt að ræða þetta á mýkri nótum og reyna að hafa það að leiðarljósi númer eitt, tvö og þrjú að leita lausnar í málinu. Það jaðrar við að ég segi, herra forseti, að ég telji skynsamlegast að fara að stytta umræðuna, kannski ljúka henni hið fyrsta og fela hv. þingnefnd að leggjast vandlega yfir málið og skora á alla viðkomandi í leiðinni að gefa nefndinni frið til að gera það og sjá hvort allshn., þangað sem það væntanlega fer, kemur upp með einhverjar þær lausnir sem varða annaðhvort lagaumhverfið eða framkvæmdina og geta tryggt að við losnum út úr því leiðinlega ástandi sem nú er uppi. Ég held að engum sé til góðs að ræða þetta í þeim tón sem hefur einkennt umræðuna og fleiri orðaskipti í fjölmiðlum eða úti í samfélaginu ef hægt er að komast hjá slíku. Mönnum ber í raun og veru, herra forseti, alveg sérstök skylda þegar í hlut á málaflokkur af þessu tagi að spara stóru orðin og setjast yfir það hvort ekki er hægt að finna þarna betri lausn.

Mér finnst líka, sem hér hefur komið fram og liggur reyndar fyrir í málinu, að fordæmið sem við erum að fylgja sé svo sérstakt að það hlýtur að leita á mann að kannski sé ekki endilega alveg einboðið að við höfum þessa framkvæmd á.

Til að draga þetta eitthvað saman að lokum, herra forseti, sýnist mér málið vera óskaplega einfalt, alveg sáraeinfalt. Í fyrsta lagi eru allir fagaðilar sammála um að það hefur mikla kosti ef hægt er að afgreiða málin öll á einum stað og í einu lagi í sérhæfðu umhverfi eins og Barnahúsið er. Ég hef eiginlega enga rödd heyrt hníga í aðra átt en að það hafi alveg ótvíræða kosti, sérstaklega frá sjónarhóli þolandans, að nýta sér þá kosti sem fólgnir eru í sérhæfingu og sérfræðiþekkingu í Barnahúsi.

Í öðru lagi hafi það mikla kosti og liggur í hlutarins eðli ef hægt er að komast hjá því að þolendurnir þurfi endurtekið að fara með vitnisburð sinn eða þola að af þeim séu teknar skýrslur eða þeir yfirheyrðir.

Þá er málið ekki flóknara en svo að í þessari jöfnu eru tvær breytur. Það er þetta tvennt sem málið snýst um. Að reyna að leysa það saman, að nota kosti hinnar sérhæfðu aðstöðu og losna við fleiri en eina skýrslutöku. Svo mikið veit ég í stærðfræði að það gefast varla einfaldari jöfnur en þær sem hafa bara tvær breytur. Er þá virkilega ekki til einhver lausn í þessu máli? Er það virkilega svo að menn þurfi að strekkja í sundur með mál af þessu tagi?

Herra forseti. Ég endurtek að ég skora á menn að setjast vandlega yfir hvort þarna sé ekki hægt að finna lausn. Það er auðvitað eðlilegur vettvangur til þess úr því sem komið er og kannski hvort sem er að það sé í höndum allshn. Alþingis. Það var allshn. sem vann að lagabreytingunni á sínum tíma í þeirri trú að menn væru að auka réttaröryggi og bæta stöðu þolendanna, svo mikið munum við öll sem vorum hér þegar það var til umræðu. En ef það er ekki að takast með þeim hætti sem til stóð eiga menn að fara yfir það. Það þarf ekki fleiri orð um það.

Hér hefur verið nefndur einn möguleiki sem er sá að nýta sér möguleika tækninnar til að þetta geti farið fram samtímis, þ.e. meðferðin í Barnahúsinu, skýrslutakan þar og hlustun dómarans, eða eftir atvikum það sem sé ígildi eða komi í stað yfirheyrslu sem standist kröfur réttarmeðferðar. Það væri ákaflega góð lausn ef menn vilja halda því fyrirkomulagi að dómarar séu þátttakendur í þessu á rannsóknarstigi málsins sem hefur verið viðhaft nú um sinn með þessum lögum. Ellegar þá einhverjar aðrar lausnir sem ég vil ekkert gefa mér hverjar ættu að vera, þaðan af síður útiloka að séu til og finnanlegar. Ég held það hljóti að vera svo. Hugsanlega er eftir atvikum hægt að leggja eitthvert format á eðli málsins, hversu alvarlegt það sé eða hversu líklegt það sé að til að enda fyrir dómstólum og þá hugsanlega til að forðast tvíverknað að kalla þá til dómara í slíkum tilvikum en sæta því frekar að í einstöku tilvikum lentu mál fyrir dómstólum þó svo að dómari hefði ekki stjórnað yfirheyrslu á rannsóknarstigi og menn væru þá í öllu falli að fækka til muna þeim tilvikum þar sem upp kæmi að þolendur þyrftu að endurtaka vitnisburð sinn eða annað slíkt.

Þetta er ekki fyrir okkur leikmennina í sjálfu sér að bollaleggja um frekar og ég ætla ekki að gera það, herra forseti, enda tel ég það kannski málinu ekki sérstaklega til framdráttar að við séum að toga það og teygja í allar áttir. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð í umræðunni en þau ein að lokum að endurtaka áskorun mína til allra málsaðila að menn leyfi málinu nú að fá frið og vandaða skoðun í þingnefnd þannig að á það verði látið reyna í alvöru að finna lausn á málinu.