Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 17:03:29 (673)

2000-10-17 17:03:29# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[17:03]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er flest komið fram sem máli skiptir í þessari umræðu. Ég hef setið og hlýtt á umræðuna nánast í allan dag og ég verð að viðurkenna að sá tónn sem í þessari umræðu er hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Hann hefur valdið mér vonbrigðum sökum þess að hann hefur einkennst af stífni og þvermóðsku sem að mínu viti á ekki við í umræðum af þessum toga og þar hefur mér fundist hæstv. dómsmrh. ganga hvað lengst. Mér hefur fundist málflutningur hennar minna mig dálítið á lítið barn sem vill ekki gefa eftir sælgætið sitt.

Þetta mál er miklu vandmeðfarnara og miklu erfiðara en svo að hægt sé að ræða það á þessum nótum. Ástæða þess að ég kem upp aftur er fyrst og fremst sú að í andsvari sem ég átti við hæstv. dómsmrh. áðan lauk hún máli sínu á þeim nótum að við treystum ekki dómurum vegna þess sem ég sagði í andsvari við hana. Þar sagði ég að erfitt væri og að dómarar væru settir í erfiða stöðu að taka á málum með hlutlægni eftir að þeir hafa þurft að standa í því að yfirheyra börn sem hugsanlega hafa orðið fyrir kynferðisbrotum.

Við megum ekki gleyma því heldur að lögreglurannsókn og rannsóknir yfir höfuð hafa það markmið að rannsaka bæði það sem leiðir til sektar og það sem getur leitt til sýknu og það getur verið dálítið erfitt að horfa á börn gefa skýrslu um það sem þau hugsanlega hafa orðið fyrir og ætla sér síðan að taka hlutlægt á þeim málum.

Dómarar eru settir í mjög erfiða stöðu. En þó að þetta sé sagt er langur vegur frá því að á nokkurn hátt sé verið að vega að dómurum. Það má segja sem svo kannski að það eina vantraust sem við höfum orðið varir við í garð dómara undanfarið kemur frá hæstv. dómsmrh. sem valdi alla aðra en dómara síðast þegar skipað var í Hæstarétt. Það er kannski það eina vantraust sem við höfum orðið varir við í garð dómara.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að þessi umræða hefur valdið mér vonbrigðum sérstaklega hvað varðar þá stífni og þá hörku sem virðist vera í þessu máli því að fyrst og fremst eigum við að reyna að komast að niðurstöðu sem þjónar rannsóknarhagsmunum og hagsmunum barnanna sem best. Það er sú niðurstaða sem við eigum að leita að. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan. Ég held að við þessar aðstæður þjóni ekki mikum tilgangi að halda umræðum áfram á þeim nótum sem hér hefur verið heldur tek undir það sjónarmið sem sett var fram áðan, að allshn. setjist yfir málið og reyni að leita lausna á því sem þjónar rannsóknarhagsmunum best, sem þjónar hagsmunum barna best og getur leitt til þess að við getum haldið áfram að þróa okkar réttarkerfi þannig að allra hagsmuna sé gætt og réttaröryggi við meðferð þessara mála sé sem best.