Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 17:29:28 (678)

2000-10-17 17:29:28# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist að hæstv. dómsmrh. sé að lesa upp úr leiðbeinandi reglum sem allir hérna inni þekkja sem hafa fjallað um þetta mál og komu fram áður en þing kom saman og einn dómari í viðtali sagði að væru leiðbeinandi reglur og dómarar gætu ákveðið hver fyrir sig hvort skýrslutaka af börnum undur 14 ára færi fram í dómhúsi eða í Barnahúsi. Það væri fullkomlega á valdi dómaranna hvor leið væri farin. Hann hélt því fram að það mundi þá aðallega vera ef um væri að ræða nauðsyn á læknisskoðun. Það er ekki ásættanleg niðurstaða í málinu sem hæstv. dómsmrh. er að lesa upp. Þetta þarf að liggja miklu skýrar fyrir en gerði í þessum leiðbeinandi reglum frá því í lok september.

[17:30]

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að karpa lengur við hæstv. dómsmrh. Við fáum enga niðurstöðu í málið hversu mikið sem ég hef lagt mig fram um að reyna að fá dómsmrh. inn í umræðuna með opnum huga, til þess að leita einhverrar niðurstöðu sem við gætum sæst á. Málið er núna í höndum allshn. Ég bind vonir við að hún komist að sameiginlegri niðurstöðu og málið komi aftur til kasta þingsins og þá verði látið á það reyna í þessum sal, ef ekki fæst önnur niðurstaða, hvort meiri hluti er fyrir því að breyta þessum lögum sem í framkvæmd hafa valdið miklum óróa og eru langt í frá fallin til þess að gæta hagsmuna barnanna.