Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 18:01:07 (690)

2000-10-17 18:01:07# 126. lþ. 11.11 fundur 12. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því að það á ekki að segja fólki upp að ástæðulausu og það er alveg sama á hvaða aldri menn eru. Það er náttúrlega alveg klárt mál. En eins og ég sagði kom mér á óvart að fulltrúi sjálfstæðismanna í þessari umræðu, þar sem er oft talað um einkaframtakið, notaði ekki tímann til þess að ræða þann hlut sem ég er að reyna að vekja athygli á. Ég held að erfitt sé að setja í lög samsetningu á starfsmönnum, að þeir eigi að vera svona og svona. Ég er alveg tilbúinn til að hugsa þetta út frá hinum opinbera geira, ríkisfyrirtækjum, fyrirtækjum sveitarfélaga o.s.frv., en ég á annars erfitt með að sjá að þetta sé mögulegt. Það kann vel að vera að flm. þáltill. hafi lausnir á þessu. En gaman væri að þrengja hringinn og skoða á hvern hátt hann hugsar þennan þátt.