Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 18:06:31 (693)

2000-10-17 18:06:31# 126. lþ. 11.11 fundur 12. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[18:06]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft við máli sem hið háa Alþingi Íslendinga hefði eflaust þurft að taka á fyrir löngu enda var gerð atrenna að því af hv. þm. Ögmundi Jónassyni einnig í fyrra. Ég held að við séum að hreyfa mjög mikilvægu máli, ekki síst vegna þess að á síðustu árum hefur verið stunduð skipulögð gerbreyting nánast á öllu atvinnuumhverfi, a.m.k. því opinbera, í þessu landi og hefur kallað á gríðarleg umbrot sem hafa vægast sagt bitnað mjög hart á miðaldra og eldra fólki. Það er mjög mikilvægt að mínu mati, og þess vegna líst mér vel á þá tillögu sem hér hefur komið fram, að skipuð verði nefnd allra flokka sem gefi hreinlega nýjan tón út í samfélagið vegna þess að í kjölfar þeirra breytinga sem átt hafa sér stað undanfarin ár hefur sprottið upp stétt stjórnenda, gjarnan ungra, sem hafa ekki þá lífssýn eða innstillingu sem er nauðsynleg þegar við lítum á samfélagsreksturinn og nauðsynleg er gagnvart fólki.

Hér eiga sér stað eftir minni tilfinningu miklu harðari stjórnunarhættir en gerast nokkurs staðar nema þar sem ríkja stjórnunarhættir þeirra manna sem eru nýríkir. Það hefur ekki þótt góð latína hingað til.

Ég átti þess kost að búa hjá stjórnanda stórfyrirtækis í Ameríku fyrir allmörgum árum. Þar á bæ eru allt öðruvísi viðhorf uppi gagnvart starfsmönnum en tíðkast nú á tímum hérlendis. Hinir nýju stjórnendur og ungdómsbylgjan í vali á nýjum stjórnendum hefur ráðið því að þeim hefur hreinlega verið gefinn tónninn af samfélaginu og ekki síst héðan úr hinu háa Alþingi. Þar sem á að breyta, bæta og laga sé ástæða til þess að henda út. Og hverjum á að henda út? Helst öllum, en a.m.k. miðaldra og eldra fólki. Þetta er óþolandi ástand og það er óþolandi út frá því að vinnuaðferðir síðustu ára eru farnar að hafa áhrif á yfirbragð þjónustunnar í landinu. Við vitum það öll að við þurfum að hafa breiddina, við þurfum að læra af þeim eldri þó að það sé ekki nema mannasiði eða góðra manna siði. Allt þetta yfirbragð er að koma í ljós núna á síðustu missirum.

Það hefur t.d. verið nefnt að við verslun og þjónustu er þreytt skólafólk við störf. Það hefur komið fram að það er kannski fólk sem ætti að vera í skólum. Það hefur líka komið fram, sem þegar sést á yfirbragði samfélagsins, að ástandið varðandi þau mál er þó sýnu skárra þar sem þrýstingurinn eða þenslan er ekki ríkjandi eins og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er svo stórt mál að það varðar alla þætti, ekki bara þann aldurshóp sem hér um ræðir, miðaldra og eldra fólk. Þetta varðar það að við höldum menningarlegu yfirbragði. Við eigum að gefa þann tón héðan út í samfélagið að ekki sé hægt að henda fólki út úr fyrirtækjum vegna breytinga bara til þess að gera það. Fólk er ekki vélar. Sú hugsun hefur verið ríkjandi hjá mörgum af okkar yngri stjórnendum að það sé um að gera að láta allt gossa og velja ný og falleg andlit í fyrirtækið. Þetta er algerlega óásættanleg lína og hið háa Alþingi á að gefa þau skilaboð að þetta sé ekki í þeim stíl eða með þeim hætti sem við viljum sjá hlutina gerast. Þess vegna held ég að sú ábending sem hefur komið fram við þáltill. hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að skipuð verði nefnd allra flokka sem fari yfir þessi mál og geri sér fyllilega grein fyrir því hvað við erum að vinna okkur mikið tjón með því að hafa ekki meiri festu í þessum málum, sé mjög gott innlegg enda var hv. þm. á því í framsögu sinni að allra leiða ætti að leita til þess að ná samstöðu um að ná sem bestum árangri í þessu máli. Ég held fyrir mína parta að það gæti verið stórt skref að skipa slíka nefnd og fá meiri umræðu um þessi mál.