Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 18:19:01 (695)

2000-10-17 18:19:01# 126. lþ. 11.11 fundur 12. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[18:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli 1. flm. er hann opinn fyrir þeim leiðum sem hafa komið til umfjöllunar. Spurningin er ekki um það, að ég hygg, að flestir og allir sem hafa talað séu ósammála markmiðunum en svo er spurning um leiðirnar.

Það er eitt sem ég vildi nefna áður en umræðunni lýkur og spyrja flm. að því. Það er ákveðinn hópur sem líka lendir í erfiðleikum og ekki síst þegar um atvinnuleysi er að ræða og einnig þó ekki sé um atvinnuleysi að ræða. Það eru fatlaðir og þarf að skoða mál þeirra sérstaklega. En hérna beinir flm. sjónum sínum bara að öldruðum og talar um að koma í veg fyrir uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs, bæði í heiti þáltill. og í tillgr. Nú hefur ekki verið mikið talað um atvinnumál fatlaðra sem þarf auðvitað að gera alveg sérstaklega vegna þess að mál þeirra eru nokkuð sérstök á vinnumarkaðnum. Getur flm. hugsað sér að í þessari tillögu eða þá í einhverri sértillögu væru þetta hópar sem ætti að skoða saman?

Ég vildi ekki láta umræðuna hjá líða án þess að nefna þennan hóp og spyrja flm. hvað hann hafi hugsað sér að því er hann varðar.