Tóbaksverð og vísitala

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 18:53:27 (702)

2000-10-17 18:53:27# 126. lþ. 11.14 fundur 16. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um tóbaksverð og vísitölu. Meðflutningsmenn mínir eru Ásta R. Jóhannesdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir.

Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að semja frv. til laga sem miði að því að slitin verði tengsl tóbaksverðs og vísitölu sem notuð er um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

Stefnt skal að því að leggja slíkt frv. fram hið allra fyrsta og verði gildistaka miðuð við 1. janúar 2001.``

Í greinargerð segir, með leyfi forseta:

,,Þingsályktunartillaga þessi hefur þrívegis áður verið flutt en ekki orðið útrædd. Hún er endurflutt hér óbreytt, en greinargerð hefur verið aukin og nýjum upplýsingum bætt þar inn auk þess sem nýjar upplýsingar koma fram í fylgiskjölum.

Á 122. löggjafarþingi voru samþykktar allveigamiklar breytingar á lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, ekki síst í því skyni að hamla gegn tóbaksneyslu barna og unglinga. Breytingar þessar voru vissulega til bóta þótt ekki hafi þar verið gripið til þess úrræðis sem telja má hvað áhrifaríkast til þess að minnka tóbaksneyslu, þ.e. raunhækkunar á tóbaksverði. Þótt tóbaksverð hafi vissulega hækkað á þeim árum sem liðin eru síðan lögunum var breytt hefur ekki verið gripið til þess ráðs að hækka verð á tóbaki verulega umfram aðrar verðbreytingar í forvarnarskyni.

Almennt er viðurkennt --- og styðst við fjölda athugana --- að sterk tengsl séu milli tóbaksverðs og tóbaksneyslu. Sé tóbaksverð hækkað er reglan sú að það leiðir til minni tóbaksneyslu og hækkun á tóbaksverði er talin ein einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að draga úr reykingum. Svonefnd verðteygni, þ.e. þau áhrif sem ætla má að hækkun umfram almennar verðbreytingar hafi á neyslu, virðist hvað tóbak snertir vera á bilinu -0,3 til -0,6, en það merkir að hækki tóbaksverð um 10% verður neyslan frá 3% og allt að 6% minni en ella hefði orðið.

Ítarleg bresk rannsókn sem gerð var fyrir nokkrum árum sýndi að tóbaksverð hafði áhrif á tóbaksneyslu í öllum tekjuhópum þjóðfélagsins en hlutfallslega meiri sem tekjurnar voru lægri. Einnig hefur verið sýnt fram á að eftirspurn eftir tóbaki er í öllum aldursflokkum háð tóbaksverði. Mest eru áhrifin á tóbakskaup unglinga og ungs fólks, svo sem fram hefur komið í rannsóknum í Bandaríkjunum og Kanada. Athyglisvert er að verðið hefur ekki síður áhrif á það hve margir reykja en hitt hve mikið er reykt.

Ljóst er því að veruleg hækkun tóbaksverðs umfram almennar verðhækkanir getur verið áhrifamikið tæki til að draga úr tóbaksneyslu almennt og ekki síst til að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja. Á alþjóðlegri ráðstefnu um tóbaksvarnir sem haldin var í Chicago í Bandaríkjunum í byrjun ágúst sl. kom fram að kunn og árangursrík ráð til að draga úr tóbaksnotkun væru fyrst og fremst að hækka verð á tóbaki, leggja bann við tóbaksauglýsingum, birta áhrifaríkar auglýsingar gegn reykingum, auðvelda aðgang að aðferðum til að hætta að reykja og berjast ötullega gegn smygli á tóbaki. Á ráðstefnunni kom einnig fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin undirbýr nú fyrsta alþjóðlega tóbaksvarnasáttmálann. Tvær blaðagreinar sem birtust í kjölfar ráðstefnunnar eru birtar sem fylgiskjöl með þings\-ályktunartillögu þessari.

Í íslenskri heilbrigðisáætlun frá 1991 er mælt með hækkunum á verði tóbaks og áfengis í því skyni að draga úr neyslunni. Þar sem heildarneysla minnkar hlutfallslega minna en verð hækkar mundi verðhækkun auk þess ekki leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð heldur tekjuaukningar.

Í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis um frumvarp til áðurnefndra breytinga á lögum um tóbaksvarnir segir að rætt hafi verið um það í nefndinni ,,hvort æskilegt væri að hækka verð á tóbaki í forvarnaskyni`` en það sé ,,tæknilega erfitt vegna tengsla tóbaks við vísitölu neysluverðs`` og sé engin tillaga flutt af nefndinni um það.

Þingsályktunartillaga þessi miðar að því að rjúfa tengsl tóbaks við vísitölu neysluverðs. Lagt er til að jafnhliða útreikningi hefðbundinnar vísitölu neysluverðs verði reiknuð sérstök vísitala án tóbaks til að nota við ákvarðanir um lánskjör. Þess má geta að þrjú Evrópulönd, Belgía, Frakkland og Lúxemborg, hafa þegar farið þessa leið, í samræmi við tilmæli frá Evrópusambandinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Getið skal að lokum könnunar sem Hagvangur gerði fyrir tóbaksvarnanefnd árið 1991. Meiri hluti þeirra sem afstöðu tóku lýsti sig fylgjandi því að tóbaksverð hefði ekki áhrif á framfærsluvísitölu. Jafnvel í hópi þeirra sem reyktu var meiri hlutinn þessu fylgjandi.``

Mér er ekki kunnugt um nýrri kannanir, en miðað við þær hugarfarsbreytingar sem hafa verið hjá þjóðinni gagnvart tóbaki þá ætla ég að frekar fleiri en færri mundu þá styðja það að tóbaksverð hefði ekki áhrif á framfærsluvísitölu.

[19:00]

En eins og kom fram áðan eru tvö fylgiskjöl með tillögunni, hvort tveggja greinar sem birtust í Morgunblaðinu, önnur þriðjudaginn 22. ágúst og hin þriðjudaginn 15. ágúst þar sem greint var frá alþjóðlegri ráðstefnu um tóbaksvarnir sem haldin var í Chicago í byrjun ágústmánaðar. Mjög sterk peningaöfl, fjármálaöfl, hafa ráðið ferðinni hvað varðar áherslur þjóða í tóbaksvörnum og má kannski fyrst og fremst nefna Bandaríkin þar sem tóbaksframleiðendur hafa verið mjög sterkt þjóðfélagsafl og haft áhrif á lagasetningar og alla tilburði til þess að draga úr tóbaksneyslu. En þeirra varnir eru að bresta heima fyrir og áhrif þeirra erlendis. Eina mögulega leiðin til þess að berjast gegn þessari drepsótt. 20. aldar eins og hún hefur verið kölluð, tóbakssóttin, er að bindast alþjóðasáttmála í tóbaksvörnum og það er verið að undirbúa slíka sáttmála. Með leyfi herra forseta, ætla ég að fá að lesa örlítið úr fyrra fylgiskjalinu, þ.e. úr þessari grein frá 22. ágúst 2000, til þess að skýra mál mitt betur:

,,Fyrsti alþjóðlegi sáttmálinn um tóbaksvarnir er nú í undirbúningi hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, og eru miklar vonir bundnar við sáttmálann í baráttunni gegn tóbaksnotkun í heiminum. Tóbaksreykingar eru að mati WHO stærstar af þeim dauðavöldum sem hægt er að koma í veg fyrir, en næstu 30 árin er áætlað að fleiri muni deyja af völdum tóbaks heldur en samanlagt af völdum alnæmis, berkla, bílslysa, morða og sjálfsvíga.``

Það er áætlað að um 10 millj. manns muni deyja á ári innan fyrsta aldarfjórðungs nýrrar aldar en tala þeirra sem látast af völdum tóbaks og þá sérstaklega reykinga hækkar mjög ört og kemur til af því að þær þjóðir sem byrjuðu seinna að nota tóbak eins og við notum það nú, eru mjög fjölmennar, t.d. þjóðir í Asíu. En miklar reykingar hjá þeim eru að skila sér núna og er orðið mjög mikið heilsufarsvandamál víða í þróunarlöndum.

Ég vil rekja það aðeins að aðdragandi að gerð sáttmálans hófst í maí 1999 þegar allar þjóðirnar, 191 að tölu, sem eru aðilar að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni samþykktu að hefja samningaviðræður um frumdrög að alþjóðasáttamála um tóbaksvarnir, en viðræðurnar skyldu hefjast formlega 16. október árið 2000 í Genf þannig að ef ég hef dagsetninguna rétta þá hófst þessi vinna í gær. Vonir eru bundnar við að þessi fyrsti alþjóðlegi sáttmáli um baráttu gegn tóbaki geti haft söguleg áhrif á heilbrigði í heiminum, með fjölþjóðlegri samvinnu sem nær yfir landamæri ríkja til þess sérstaklega að stemma stigu við markaðssetningu tóbaks og smygli. Það er ekki að ástæðulausu að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett tóbaksvarnir í forgang og það má einnig nefna nafn Gro Harlem Brundtland sem hefur verið ötull talsmaður tóbaksvarna og haft mikil áhrif á vinnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Ég vísa til fylgiskjalanna og í raun til heilbrigðrar skynsemi því að ef við ætlum að ná verulegum árangri og að hækka verð eins og þarf þá hefur það áhrif á vísitöluna og eina mögulega leiðin er þá að slíta þessa þætti í sundur.

Ég vil fá að vitna í orð Guðmundar Þorgeirssonar, lyflæknis og sérfræðings í hjartasjúkdómum, sem sagði í fréttum í sjónvarpinu 2. október sl. að hátt verð á tóbaki væri besta vörnin gegn reykingum og kæmi helst í veg fyrir að ungmenni byrjuðu að reykja. Hann nefndi líka að til þess að hækkunin hefði eitthvað að segja þyrfti að hækka verðið tvöfalt ef ekki þrefalt.

Herra forseti. Að loknum þessum umræðum óska ég eftir að þáltill. verði vísað til hv. heilbr.- og trn.