Þróun sjálfbærs samfélags í Hrísey

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 19:16:10 (705)

2000-10-17 19:16:10# 126. lþ. 11.15 fundur 17. mál: #A þróun sjálfbærs samfélags í Hrísey# þál., Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[19:16]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir ábendingar hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar varðandi fráveitumál í þessari þáltill. um atvinnuuppbyggingu og þróun sjálfbærs samfélags í Hrísey. Ég er honum innilega sammála. Ég held að t.d. með því að skoða þessi fráveitumál minni sveitarfélaga þá geti niðurstaðan orðið sú, eins og hv. þm. benti á, að það sé hreinlega ekki þörf á að fara í eins kostnaðarsamar framkvæmdir og menn hafa stefnt að til þessa. Í gangi eru nýjar rannsóknir á þessu en það liggur engu að síður fyrir að gera þarf lagfæringar og ákveða hversu langt er farið út með fráveitukerfið o.s.frv. Ég bind miklar vonir við að athugun á þessu á grunni þáltill. og úrlausn mála í Hrísey geti orðið fyrirmynd þess sem við viljum gera annars staðar.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti á, að nú eru uppi efasemdir um þær lausnir sem við höfum valið okkur í fráveitumálum, vægast sagt. Mér er kunnugt um rannsóknir á fráveitukerfi miklu stærra bæjarfélags en í Hrísey þar sem mengunarmælingar leiddu í ljós að það stóðst allar kröfur þó að almennt hefði holræsakerfið verið talið í ólagi. Það eru margir sem efast núna um kosti þess að safna saman úr öllum lögnum eins og nú er gert og dæla út á örfáum stöðum eða jafnvel bara einum stað frá stórum bæjarfélögum. Það væri ekki ónýtt fyrir fátæka og tekjulitla sveitarsjóði minni sveitarfélaganna ef við gætum komist niður á formúlu með markvissri vinnu fyrir þetta samfélag í Hrísey og fundið lausn sem uppfyllti öll skilyrði en væri miklu ódýrari. Það eru allar líkur á því að það gæti tekist.

En í þessum málum eru líka aðrir hlutir sem þarf að athuga. Varðandi samfélag sem er afskekkt eins og Hrísey og á erfitt með flutninga kvikna spurningar um jarðvegsgerð úr sorpi sem mundi náttúrlega spara á allan hátt auk þess að búa til nýjan og ferskan jarðveg. Jafnframt verður að reikna með flokkun á sorpi þannig að ekki sé flutt í land eða út um allar trissur sorp sem getur farið í endurnýtingu o.s.frv. Endurvinnsluhugsunin og allt þar að lútandi getur breytt miklu.

Með þessari tillögu held ég að við gætum fengið formúlu fyrir rekstur og uppbyggingu margra sveitarfélaga af þessari stærðargráðu, frá kannski 250 manns og upp undir þúsundið. Vinnan samkvæmt tillögunni mundi þá gagnast öðrum.

Ekki vil ég gera minna úr þeirri hugsun sem felst í vistvænum veiðum. Kryfja þarf til mergjar, bæði hvaða veiðarfæri skuli notuð, hvernig fiskurinn er sóttur og taka upp meðvitaða stefnu í því hvernig fiskurinn er unninn og hvernig hann er markaðssettur. Auðvitað getur svona tilraun innan nokkurra ára gefið okkur vísbendingar og þekkingu sem orðið gæti mikilla peninga virði. Vera kann að augu okkar opnuðust fyrir því að markaðssetning á vistvænum afurðum gæfi okkur meiri tekjur en okkur nokkurn tímann óraði fyrir.

Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni ábendinguna og lýk svo máli mínu.