Umferðaröryggisáætlun og umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:12:50 (723)

2000-10-18 14:12:50# 126. lþ. 13.2 fundur 39. mál: #A umferðaröryggisáætlun og umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og öðrum fyrir þátttöku í umræðunni þá held ég að ég hljóti að verða að láta í ljósi þá skoðun mína að ég hafði vonast eftir efnismeiri svörum. Þetta ástand er ósköp einfaldlega þannig að ég tel að menn geti ekki sætt sig við það. Fjöldi dauðaslysa og slysa sem hafa í för með sér meiri háttar líkamstjón eða örkuml er svo hlutfallslega hár hér á landi að við getum ekki sætt okkur við það baráttulaust að reyna ekki að ná þar einhverjum árangri.

Ég benti á að þróunin á Íslandi sker sig í úr frá nálægum löndum þar sem menn hafa nánast alls staðar náð umtalsverðum árangri nokkurn veginn í takt við þau markmið um fækkun slysa sem umferðaröryggisáætlanir t.d. hinna Norðurlandanna ganga yfirleitt út frá. Hér er þetta ekki að takast. Í besta falli erum við að halda í horfinu og þó sennilega tæplega það ef tekin eru allra alvarlegustu slysin, þ.e. banaslys eða þar sem meiri háttar líkamstjón verður.

Ég á erfitt með að fá þá fullyrðingu hæstv. ráðherra til að ganga upp að umferðaröryggisgæsla eða löggæsla sé að aukast. Í ljósi þeirrar staðreyndar að umferðardeild lögreglunnar hefur nánast verið lögð niður, enginn sérstakur bílafloti er eftir til að sinna þessu verkefni sem slíku, akstursheimildir lögreglunnar almennt í landinu hafa verið stórskertar á undanförnum árum þannig að sum embættin komast varla endimarka á milli nema taka til þess vikukvóta og þar fram eftir götunum, þá ber nú held ég flest að sama brunni. Lögreglan telur a.m.k. sína stöðu til að sinna slíkum verkefnum hafa stórlega verið skerta, bæði hvað varðar möguleika til akstur, yfirvinnu og slíkra hluta.

Ég held að fara verði yfir málið í heild sinni, herra forseti. Við verðum að spyrja hvort þarna sé um að kenna of lítilli gæslu. Er fræðslan að bregðast, er hún ónóg, eru ökuréttindin, ökukennslan ekki eins og hún þyrfti að vera? Og síðast en ekki síst að taka á hraðanum í umferðinni sem er auðvitað meginsökudólgurinn.

Ég vonast til þess, herra forseti, að hæstv. ráðherra reyni að taka þessi mál föstum tökum.