Hlutverk ríkislögreglustjóra

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:26:01 (728)

2000-10-18 14:26:01# 126. lþ. 13.3 fundur 86. mál: #A hlutverk ríkislögreglustjóra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:26]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég er nokkuð hugsi yfir þeim upplýsingum sem komið hafa fram í svari dómsmrh. til fyrirspyrjanda, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar frá Samfylkingunni. Við litum öll svo á að með stofnun ríkislögreglustjóraembættisins væri honum ætlað að taka við ákveðnum samræmingarverkefnum og fara með yfirstjórn lögreglu eins og hér hefur komið fram, þetta yrði nokkuð lítið embætti með stjórnsýslu.

Ráðherrann hefur svarað hér að fjarskiptaeftirlit, umferðareftirlit, eitthvað fleira og safnliðir hafi verið fluttir til embættisins. En getur það skýrt þá miklu aukningu í fjármunum að upp undir 690 millj. séu í fjárlagafrv. fyrir næsta ár á sama tíma og við höfum átt umræðu um umferðaröryggismál þar sem ekki er að heyra að neinir sérstakir fjármunir séu veittir til? Ég vil fá frekari útskýringu á þessu frá hæstv. ráðherra.