Hlutverk ríkislögreglustjóra

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:29:47 (730)

2000-10-18 14:29:47# 126. lþ. 13.3 fundur 86. mál: #A hlutverk ríkislögreglustjóra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Mér þykir miður að sumir hv. þm. hafi ekki áttað sig á öllum þeim nýju verkefnum sem ég lýsti í fyrri ræðu minni, m.a. vegna Schengen-samningsins. Hann kostar auðvitað mikið fé. Ég vil taka það skýrt fram að ríkislögreglustjóraembættið hefur líka þurft að hagræða um 1,7% alveg eins og allar aðrar stofnanir dómsmrn. og það hafa engar ákvarðanir verið teknar um breytingar á löggæslu á landinu né heldur í sambandi við sýslumenn.

[14:30]

Ég tel rétt að fjalla nánar um hlutverk ríkislögreglustjóraembættisins. Eitt af meginhlutverkum þess er að miðla upplýsingum innan lögreglunnar og koma í framkvæmd ákvörðunum framkvæmdarvaldsins. Honum ber m.a. að vera dómsmrh. til ráðgjafar um stjórnun lögregluliða, þróun nýrra vinnuaðferða og vinnubragða, forvarnastarf, nýmæli í tæknilegum efnum og þjálfun og menntun þeirra sem starfa að löggæslu. Ég er viss um að hv. þm. geta leitað að þessum atriðum í lögreglulögum ef þeir hafa áhuga á því.

Ríkislögreglustjóri gegnir lykilstöðu í alþjóðlegri samvinnu og vex vægi þess hlutverks stöðugt eins og ég nefndi áðan. Þar ber fyrst að nefna Schengen-upplýsingakerfið og rekstur Schengen-skrifstofu en einnig öll samskipti við Interpol og í framtíðinni Europol. Jafnframt hefur embættið mikilvægar stoðdeildir fyrir öll lögregluumdæmi í landinu sem aðstoða lögreglustjóra við úrlausn erfiðra mála þegar þeir leita eftir því. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakar öll meiri háttar skatta- og efnahagsmálabrot, þar með talin peningaþvættisbrot sem er mikilvæg hlið fíkniefnamála. Þar hefur safnast fyrir mikil sérþekking á flóknum brotamálum. Sú deild hefur verð efld í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Stofnun embættis ríkislögreglustjóra var mikilvægt skref í þá átt að svara kröfu nútímans um öfluga og vel skipulagða löggæslu. Ég tel að þeim markmiðum sem stefnt var að með setningu lögreglulaga og með hlutverki ríkislögreglustjóra hafi verið náð. Umfram allt starfar ríkislögreglustjóri í umboði dómsmrh. og meiri háttar skipulagsbreyting á starfsemi lögreglunnar í landinu verður aðeins framkvæmd með samþykki ráðherra og lagabreytingum eftir atvikum.