Fangelsismál

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:32:13 (731)

2000-10-18 14:32:13# 126. lþ. 13.4 fundur 99. mál: #A fangelsismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÖ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég er með fsp. um fangelsismál til hæstv. dómsmrh. Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru yfirgripsmiklar spurningar þannig að vel má vera að ég endurtaki þær og biðji um skriflegt svar síðar ef svo ber við. Spurningarnar eru eftirfarandi:

1. Hvað líður áformum um byggingu fangelsis á höfuðborgarsvæðinu? Mikil umræða hefur að undanförnu verið um áætlaða byggingu fangelsis hér. Við vitum vel að það er alltaf verið að flytja gæsluvarðhaldsfanga á Litla-Hraun. Það eru einungis tvö pláss í Reykjavík, í hegningarhúsinu, sem er eiginlega ekki annað en safn. Ég er forvitin að fá að heyra um þessi áform.

2. Er fyrirhugað að opna sérstaka meðferðardeild á Litla-Hrauni fyrir þá fanga sem þurfa á áfengis- og/eða fíkniefnameðferð að halda? Ég vil meina að slíkt þurfi í upphafi fangelsisvistar þannig að hún nýtist sem best.

3. Er kynferðisafbrotamönnum boðið upp á sértæka meðferð innan fangelsanna? Mig langar að vita hvort við höfum nýtt okkur þau módel sem t.d. hefur verið komið upp í Skandinavíu sem meðferðarúrræði fyrir fólk með slík brot á bakinu.

4. Hvaða verkefni standa föngum til boða meðan á afplánun stendur? Ég tel mjög mikilvægt að hugað sé að þessum málum og ég vil gjarnan líta á fangelsi sem betrunarhús þannig að möguleiki sé á því að verða betri með því að sitja inni.

5. Geta afplánunarfangar sótt námskeið, og ef svo er, eru þau sértæk fyrir konur, ungt fólk, síbrotamenn, fíkla o.s.frv.? Ég minni á að gerðar hafa verið mjög góðar skýrslur um mörg af þessum málum, en það sem ég tel mikilvægast nú er að heildarstefnumótun verði mörkuð í málefnum fanga og þar verði margbreytileiki úrræða í fyrirrúmi. Þá er ég auðvitað að hugsa um unga fólkið, um konur, um fíkla og kynferðisafbrotamenn. Ég held fangelsisdvöl eigi líka að nýtast til ákveðinnar uppbyggingar þannig að við reynum að loka þeim vítahring sem umlykur stóran hóp þeirra sem sitja inni.

Ég vil líka minna á skýrslu, sem ég kom að vísu að sjálf, um málefni ungra afbrotamanna. Það er afar mikilvægt að gera áætlun um hvernig þeim málum sé best borgið.