Fangelsismál

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:35:06 (732)

2000-10-18 14:35:06# 126. lþ. 13.4 fundur 99. mál: #A fangelsismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir spurningarnar. Ég tel reyndar að það væri góð hugmynd að leita eftir frekari svörum við þessum spurningum vegna þess að það skiptir svo sannarlega máli að mínu mati að við ræðum fangelsismál. Ég tel þau ákaflega mikilvægan málaflokk.

Varðandi fyrstu spurninguna um áform um byggingu fangelsis á höfuðborgarsvæðinu þá er verið að vinna að undirbúningi málsins. Viðræður standa yfir við Reykjavíkurborg um lóðamál og verið er að móta hugmyndir um gerð og innra fyrirkomulag fangelsis sem hugmyndin er að verði byggt í áföngum eftir því sem þörf kallar á.

Fangelsið er í fyrsta áfanga hugsað sem móttöku- og gæsluvistarfangelsi. Ég vildi gjarnan hafa fleiri orð um hvaða væntingar ég hef til þess en ég held ég verði að láta það bíða að sinni.

Í öðru lagi er spurt hvort fyrirhugað sé að opna sérstaka meðferðardeild á Litla-Hrauni fyrir þá fanga sem þurfa á áfengis- og/eða fíkniefnameðferð að halda. Það eru ekki reknar sérstakar meðferðardeildir í fangelsum á Íslandi. Fangelsinu á Litla-Hrauni er þó skipt niður í sjö almennar fangadeildir og er föngum raðað þar niður með tilliti til ástands þeirra, hegðunar og framtíðaráforma. Fangelsismálastofnun hefur frá árinu 1990 verið í samstarfi við SÁÁ um áfengis- og vímuefnameðferð í afplánun. Þetta samstarf hefur gefið góða raun og hafa fangar sem á meðferð hafa þurft að halda og óskað eftir því farið í meðferð síðustu sex vikur afplánunar og stundum lengur.

Síðustu missiri hafa nokkrir ungir fangar verið sendir til meðferðar hjá SÁÁ við upphaf afplánunar, þ.e. ef ástand þeirra við komu í fangelsi hefur verið alvarlegt. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt atriði. Þá hefur föngum í nokkrum tilfellum verið heimilað að stunda göngudeildarmeðferð utan fangelsa, t.d. í samráði við Krýsuvíkursamtökin og einnig hafa þeir verið vistaðir í meðferð á almennum sjúkradeildum svo sem Gunnarsholti. Meginreglan er því sú að fangar fara í áfengis- og vímuefnameðferð utan fangelsanna nema þegar um einstaklingsmeðferð hjá sálfræðingi er að ræða. Hið síðastnefnda er að sjálfsögðu þýðingarmikill þáttur í meðferð fyrir fanga þar sem margir þeirra glíma við slík vandamál.

Í þriðja lagi er spurt hvort kynferðisafbrotamönnum sé boðið upp á sértæka meðferð innan fangelsanna. Tveir sálfræðingar eru í fullu starfi í fangelsiskerfinu, annar hjá Fangelsismálastofnun og hinn í fangelsinu að Litla-Hrauni. Þeir veita kynferðisafbrotamönnum einstaklingsmeðferð eins og öðrum föngum, en ekki er um hópmeðferð að ræða. Rúmlega 80% fanga, sem á tímabilinu 1999--2000 hafa verið dæmdir fyrir kynferðisafbrot, eru eða hafa verið í viðtölum hjá sálfræðingi. Föngum stendur öllum meðferð til boða en eru ekki þvingaðir í meðferð gegn vilja sínum. Íslenskt fangasamfélag hefur nokkra sérstöðu að því er varðar hópmeðferð. Vegna þess hve fáa einstaklinga er um að ræða og vegna smæðar íslensks samfélags er líklegt að fangarnir eða fjölskyldur þeirra þekkist. Því er gjarnan talið vandkvæðum bundið að fá þá til að tjá sig um viðkvæm persónumálefni sín í hóp.

Í fjórða lagi er spurt hvaða verkefni standi föngum til boða meðan á afplánun stendur. Í upphafi er rétt að geta þess að frá árinu 1995 hefur 30--60 föngum á hverju ári verið gefinn kostur á að stunda nám eða vinnu, allt að sex síðustu mánuði afplánunartímans, frá áfangaheimili félagssamtakanna Verndar í Reykjavík. Þetta er þýðingarmikill þáttur í þeirri viðleitni fangelsisyfirvalda að undirbúa menn fyrir komu þeirra út í hið frjálsa samfélag.

Föngum í fangelsum stendur til boða vinna, nám, íþróttaiðkun og að sinna þeim áhugamálum sínum sem samrýmast fangavistinni. Vinnuframboð er mismunandi eftir fangelsum. Í hegningarhúsinu og fangelsinu á Akureyri er lítil aðstaða til vinnu þannig að föngum þar stendur aðeins til boða að vinna við þrif og þvotta en þannig vinna er í öllum fangelsunum. Í þessum fangelsum eru fangar því yfirleitt vistaðir í skamman tíma nema þeir óski sjálfir eftir lengri dvöl.

Í fangelsinu á Kópavogsbraut 17 er viðunandi vinnuaðstaða, t.d. við ýmiss konar pökkun. Í fangelsinu á Litla-Hrauni er fjölbreytt vinna, m.a. við framleiðslu skráningarnúmera á bifreiðar, hellusteypu, brettasmíði, framleiðslu á skjalatöskum og snittbútagerð. Í fangelsinu á Kvíabryggju er góð vinnuaðstaða við beitningu, brettasmíði og viðgerðir á fiskikörum. Námsaðstaða er góð í fangelsinu á Kópavogsbraut í samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi. Svo er einnig á Litla-Hrauni í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Á Akureyri er náið samstarf við Verkmenntaskólann á Akureyri. Íþróttaaðstaða er mjög góð á Litla-Hrauni þar sem reist var sérstakt íþróttahús fyrir nokkrum árum.

Í Kópavogsfangelsinu er íþróttaaðstaða viðunandi og á Kvíabryggju mun aðstaðan verða góð í nýrri viðbyggingu sem á að verða tilbúin í desember.

Ég læt síðustu spurninguna bíða þar til í seinni ræðu.