Fangelsismál

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:45:08 (736)

2000-10-18 14:45:08# 126. lþ. 13.4 fundur 99. mál: #A fangelsismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Í fimmta lagi var spurt: Geta afplánunarfangar sótt námskeið og ef svo er, eru þau sértæk fyrir konur, ungt fólk, síbrotamenn, fíkla o.s.frv.? Fá formleg námskeið eru haldin í fangelsunum fyrir utan reglubundið skólanám. Þó eru haldin regluleg námskeið í stjórn vinnuvéla og nám til 30 tonna skipstjórnarréttinda í fangelsinu á Litla-Hrauni. Ekki hefur verið farin sú leið að skipta föngum sérstaklega í tilgreinda hópa í slíku námskeiðahaldi enda er ekki gert ráð fyrir því í lögum um fangelsi og fangavist né öðrum reglum. Hins vegar er þessara sjónarmiða gætt að vissu marki við niðurröðun fanga í fangelsi.

Síðustu tvö ár hafa félagsráðgjafar frá Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar heimsótt fangelsin, einkum til þess að hitta þá sem eru að ljúka afplánun. Sérstakt samkomulag er á milli Fangelsismálastofnunar og Félagsþjónustunnar hvað þetta varðar.

Við þetta má bæta að fangar læra oft og tíðum ný vinnubrögð í þeirri vinnu sem stendur til boða í fangelsum sem þeir geta nýtt sér þegar afplánun lýkur en vinna er þar talin gegna mjög veigamiklu hlutverki í fangavist.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi viðbætur við Litla-Hraun. Ég bendi hv. þm. á að mörg ný úrræði hafa orðið til sem betur fer, t.d. samfélagsþjónusta sem gerir það að verkum að ekki þarf að nýta fangelsin eins mikið og þörf var á áður en það er auðvitað ekki markmið að fangelsin séu alltaf höfð full, síður en svo.

Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir áhuga hans á málinu. Ég vil sérstaklega nefna að ég bind miklar vonir við tilkomu nýs fangelsis þar sem veitt verður sérstök þjónusta við upphaf fangavistar. Þar munu sérfræðingar greina vandamál hvers fanga og leggja til úrræði sem eiga við í tilviki hans. Ég mun líka halda til haga þeirri athugasemd sem hv. þm. Magnús Stefánsson minntist á. Það þarf að athuga þau mál sérstaklega.

Sem betur fer er vaxandi umræða um fangelsismál í þjóðfélaginu og ég tel að þetta sé ákaflega mikilvægur málaflokkur og þess vegna ítreka ég þakkir mínar til hv. fyrirspyrjanda.